Skip to main content

Þingmenn af norðurslóðum funduðu á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. okt 2023 12:10Uppfært 19. okt 2023 14:01

Þingmannanefnd um norðurskautsmál fundaði á Austurlandi í vikunni. Komið var við á Egilstöðum, Fáskrúðsfirði og í Fljótsdal. Á dagskránni voru meðal annars umhverfismál og velferðarmál.


Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins frá Fáskrúðsfirði, er formaður Íslandsdeildar ráðsins sem var gestgjafi fundarins. Hún var því fulltrúi landsins á fundinum. Að auki tóku fulltrúar frá Norðurlöndunum, Kanada og Bandaríkjunum þátt í fundinum en Rússlandi var vikið til hliðar eftir innrásina í Úkraínu í fyrra.

Fulltrúar Vestnorrænaráðsins og Norðurlandaráðs sitja einnig fundina. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sat fyrir Norðurlandaráð. Grænlenski þingmaðurinn Aaja Chemnitz er formaður þingmannanefndarinnar og Liza Murkowski, öldungadeildarþingmaður Alaska á Bandaríkjaþingi, varaformaður.

Þingmannanefndin fundar 2-4 sinnum á ári og heldur svo ráðstefnu annað hvert ár. Sú næsta verður í Svíþjóð í mars. Hana sækja einnig hinir tveir þingmennirnir í Íslandsdeildinni, Eyjólfur Ármannsson úr Flokki fólksins og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr Norðausturkjördæmi.

Sjálfbærni, loftslagsbreytingar og frumbyggjar


Líneik segir áhersluna í starfinu vera á sjálfbærni á norðurslóðum, sem byggi á þróun samfélaga, umhverfi og náttúru auk málefni frumbyggja og loftslagsbreytinga. Þessi málefni séu rædd á öllum fundum með einhverjum hætti og svo hafi einnig verið á Egilsstöðum.

Þá hafi Morten Höglund, framkvæmdastjóri norðurskautsráðsins, kynnt þá vinnu sem þar er í gangi. Norðurskautsráðið starfar á svipuðum grunni og þingmannanefndin nema þar sitja utanríkisráðherrar ríkjanna eða fulltrúar þeirra.

Á þess vegum starfa líka vinnuhópar. Störf tveggja vinnuhópa sem stýrt er frá Akureyri voru kynnt á fundinum í vikunni. Annar hópurinn fjallar um viðhald líffræðilegs fjölbreytileika en hinn um umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu í hafi.

Þingmennirnir ræða sameiginleg hagsmunamál með það að markmið að læra hver af öðrum. Þannig hefur Ísland í gegnum tíðina haldið á lofti jafnréttismálum og velferðarmálum. Nýverið kynnti Líneik Anna íslenska forvarnamódelið að ósk Grænlendinga.

Þingmennirnir fá einnig kynningar á staðbundnum málefnum. Á fundinum eystra var sérstök áhersla á orkumál. Framkvæmdastjóri HEF veitna kynnti starfsemina, farið var í heimsókn Vök baths og Fljótsdalsstöð. Á Fáskrúðsfirði var komið við á Fosshóteli, Franska safninu og Norðurljósahúsinu. Þar kynntu fulltrúar Loðnuvinnslunnar einnig starfsemina og íslenskan sjávarútveg. Þá voru kynningar frá sveitarfélögunum Múlaþingi og Fjarðabyggð.

Samtalið um norðurslóðir skiptir Íslendinga máli


Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu fyrra var allt starf þingmannanefndarinnar sett á ís. Slíkt hefur áhrif, Rússar eiga gríðarlega mikið land á norðurslóðum auk þess sem þeir voru á þeim tíma með formennsku í Norðurskautsráðinu. Líneik Anna segir að þingmannanefndin hafi ákveðið að halda vinnu sinni áfram, en án þátttöku Rússa.

„Það skapar ýmsar áskoranir í samstarfinu en við hin hittumst til að halda áfram lifandi samtali. Samstarf á Norðurslóðum er okkur Íslendingum afar mikilvægt og nauðsynlegt að samtal og samvinna fari fram um sameiginleg málefni svæðisins. Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara nú,“ segir hún.