Þingmenn taka kjördæmavikuna snemma
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. feb 2024 10:48 • Uppfært 21. feb 2024 10:49
Kjördæmavika Alþingis verður haldin í næstu viku. Fer það gjarnan saman við heimsóknir til sveitarfélaga og fyrirtækja á landsbyggðinni sem og opna stjórnmálafundi. Strax í þessari viku eru þó nokkrir þingmenn komnir á svæðið.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var með opinn fund á Egilsstöðum á mánudagskvöld.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og Logi Einarsson, þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi, hafa gert víðræst í dag og í gær. Þau tóku daginn snemma á Vopnafirði í morgun eftir að hafa fundað á Norðfirði, Reyðarfirði og Seyðisfirði í gær.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, er á ferðinni um landið með opna umræðu- og kynningarfundi um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030. Sá fundur verður haldinn á Hótel Héraði klukkan 14:00 á morgun. Hún heldur síðan opinn stjórnmálafund á Egilsstöðum annað kvöld.
Miðflokkurinn hefur einnig staðfest komu formannsins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar með þingmanninum Bergþóri Ólasyni um helgina. Þeir verða á Eskifirði á föstudagskvöld en síðan Seyðisfirði og Egilsstöðum á laugardag.
Búast má við fleiri fundum og heimsóknum í næstu viku í kjördæmavikunni sjálfri. Strax á mánudag hefur verið boðaður fundur með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, oddvita Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi á Egilsstöðum á mánudag.