Skip to main content

Þingmönnum á ekki að fækka í Norðausturkjördæmi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. sep 2025 10:52Uppfært 26. sep 2025 10:57

Miðað við núverandi kosningalög er ekki útlit fyrir að þingmönnum í Norðausturkjördæmi fækki í næstu kosningum. Oddviti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu hvetur Austfirðinga til að halda vöku sinni gagnvart boðuðum breytingum á lögunum.


Ríkisstjórnin boðaði að hún legði í vetur fram tillögur um breytingar á kosningalögum sem eigi að jafna atkvæðavægi og dreifingu þingsæta. Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sagði í ræðu sinni á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi fyrir viku að þingmenn kjördæmisins yrðu að berjast á móti slíkum breytingum.

Hann sagði að hvergi í nálægum lýðræðisríkjum, hvorki á Norðurlöndunum, Evrópu né Bandaríkjunum væri að finna kosningakerfi til þings sem gerði ráð fyrir fullkominni jöfnun íbúa og atkvæða. Sem dæmi hefðu Alaska og Kalifornía hvort sitt atkvæðið í öldungadeild Bandaríkjaþings þótt íbúar Kaliforníu séu 57 sinnum fleiri.

„Við verðum að hafa þann styrk á þingi sem þarf til að geta barist fyrir þeim hagsmunamálum sem eru brýn fyrir okkar fólk og fjórðung, sérstaklega í ljósi þess að 80% íbúa búa milli Hvítánna. Það er ekki bara hausatalan sem skiptir máli heldur líka efnahagslegt mikilvægi,“ sagði Jens.

Norðausturkjördæmi undir mörkunum


Jens Garðar hélt því einnig fram að hætta væri á að Norðausturkjördæmi muni missa einn af sínum tíu þingmönnum í næstu kosningum vegna breytingar á íbúafjölda, en skammt er síðan þingmönnum Norðvesturkjördæmis fækkaði úr níu í átta.

Samkvæmt upplýsingum frá landskjörstjórn liggur hins vegar fyrir að ekki verða breytingar við næstu þingkosningar miðað við núverandi kosningalög. Í þeim segir að eftir hverjar kosningar skuli reikna út þingsæti fyrir þær næstu. Reglan er að ekki séu helmingi færri kjósendur að baki þingsæti í einu kjördæmi en því næsta.

Í fundargerð landskjörstjórnar frá 10. desember síðastliðnum, þar sem jafnframt var úthlutað þingsætum eftir staðfestum kosningaúrslitum, kemur fram að kjósendur að baki hverju þingsæti í Norðausturkjördæmi séu 3.107 en í Suðvesturkjördæmi 5.649. Það þýðir að hlutfallið er 1,82 og því ekki þörf á breytingu.