Þjálfa nýja flugmenn Icelandair á Egilsstaðaflugvelli
Fjórir nýir flugmenn Icelandair hafa eftir hádegið æft aðflug, lendingar og flugtak frá Egilsstaðaflugvelli á stærri Bombardier-vél flugfélagsins.
Töluverða athygli vakti í bænum upp úr hádeginu þegar svo virtist sem áætlunarvél Icelandair ætti í vandræðum með að lenda á vellinum þrátt fyrir blíðskaparveður og lítinn vind. Virtist hún reyna lendingu nokkrum sinnum án árangurs og tók á loft jafnóðum og hjólin snertu flugbrautina. Lítt þarf þó að hafa áhyggjur því hér eru fjórir nýir flugmenn Icelandair að æfa sig á vélina að sögn Ásgeirs Rúnars Harðarsonar, umdæmisstjóra Isavía á Egilsstaðavelli.
„Hér eru fjórir flugmenn að æfa aðflugið, lendingu og flugtak strax í kjölfarið og það á þessari stærri vél af Bombardier sem Icelandair notar í innanlandsflugið. Ég get svo sem tekið undir að æfingar af þessu taginu eru ekki mjög algengar á Egilsstaðaflugvelli en líkast til hafa þeir valið þennan stað fremur en Reykjavík eða Keflavík vegna veðurs geri ég ráð fyrir.“
Um þriggja klukkustunda æfingaprógramm er að ræða og vélin er enn, þegar þetta er skrifað, að síendurtaka aðflug og flugtak en Ásgeir segir að æfingin sé rétt rúmlega hálfnuð.