Þjónusta fyrir fólk í framkvæmdum á einum stað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. apr 2023 11:42 • Uppfært 04. apr 2023 11:43
Hjónin Íris Sverrisdóttir og Óttar Steinn Magnússon opnuðu Elmu studio á Egilsstöðum síðasta haust. Þar vilja þau bjóða á einum stað þjónustu fyrir fólk í framkvæmdum, hönnun, efni og jafnvel smíðar
„Þegar við fluttum austur stóðum við í framkvæmdum og okkar upplifun þá var að markaðurinn hér væri einhæfur. Það væri lítið úrval til að skoða heldur þyrfti suður til að skoða og þvælast þá búð úr búð. Það tekur tíma og orku, til viðbótar við framkvæmdirnar.
Okkur fannst vera gat í markaðinum hér að bjóða upp á stað þar sem fólk í framkvæmdahug gæti komið á einn stað og fengið smjörþefinn af framboðinu,“ segir Óttar Steinn.
„Að fara í framkvæmdir er nógu streituvaldandi, hvað þá þegar maður hefur engan áhuga eða þekkingu. Maður kemur til Reykjavíkur þar sem eru endalausir möguleikar svo maður veit ekki í hvaða verslun á að byrja.
Við viljum geta boðið fólki upp á að koma hingað í notalegt umhverfi með annað úrval en verið hefur á Austurlandi. Við erum með ákveðna birgja, en hér í sýningarsalnum okkar eru vinsælustu vörurnar, annars er hægt að panta allt úrvalið og fá það afhent hér,“ segir Íris um Elmu studio sem er með umboð fyrir Tengi, Harðviðarval, Sérefni og Álnabæ.
„Hugsunin er að í versluninni séum við með prufur og sýnishorn frá okkar birgjum, án þess að úr verði valkvíði með úttroðnum hillum af prufum. Fólk á að geta komið til okkar og fengið einfalda ráðgjöf í verslun, en ef það vilji meiri aðstoð þá getum við stigið inn í verkefnið eftir þörfum viðskiptavinarins, allt frá aðstoð á staðnum við efnisval og upp í verkstýringu og jafnvel byggingarstjórn,“ bætir hún við.
Þau koma með ólíkan bakgrunn að borðinu. Óttar Steinn er lærður smiður og byggingarfræðingur en Íris innanhússtílisti. „Við vegum hvort annað ágætlega upp, ég kem með hugmyndirnar og hann kannar hvort þær séu framkvæmanlegar,“ segir hún.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.