Þjónusta í Fjarðabyggð dalar milli ára samkvæmt könnun
Sveitarfélagið Fjarðabyggð er undir meðallagi á landsvísu hvað varðar ánægju íbúa með ýmis konar þjónustu í átta tilfellum af tólf alls sem spurt er út í samkvæmt nýrri úttekt Gallup.
Gallup framkvæmir árlega sérstaka úttekt á þjónustu stærri sveitarfélaga landsins og leitar þá til þátttakenda úr sérstökum viðhorfshópi fyrirtækisins til að fá yfirlit yfir hvort þjónustan hefur batnað eða versnað á milli ára og ber þær niðurstöður saman við önnur sveitarfélög. Austurfrétt fjallaði nýverið um niðurstöður sömu könnunar hjá Múlaþingi sem lesa má um hér en þátttaka var töluvert meiri í Múlaþingi þar sem yfir 500 svör bárust samanborið við einungis 165 sem sáu ástæðu til tjáningar úr Fjarðabyggð.
Af tólf mismunandi þjónustuþáttum sem spurt er út í og þar notaður skali frá 1 (lakast) og upp í 5 (best) þykir þjónusta Fjarðabyggðar við íbúa sína að meðaltali verri en annarra sveitarfélaga í einum átta flokkum og í sjö þeirra þykir þjónustan hafa versnað frá árinu áður. Aðeins í einu tilviki er þjónustan í Fjarðabyggð metin betri en annarra sveitarfélaga að meðaltali en þar um að ræða þjónustu leikskóla sveitarfélagsins.
Heilt yfir segjast 73 prósent Fjarðabyggð vera góðan stað til búsetu meðan 10 prósent eru því ósammála. Á skala Gallup fær Fjarðabyggð einkunnina 3,8 en meðaleinkunn allra annarra sveitarfélaga er 4,1. Til samanburðar töldu 82 prósent íbúa Múlaþings þar gott að búa.
Almenn ánægja með þjónustu í heildina mælist 3,1 að meðaltali í Fjarðabyggð meðan meðaltal allra annarra stærri sveitarfélaga er 3,6. Þá er Fjarðabyggð eftirbátur annarra sveitarfélaga hvað viðkemur menningarmálum með einkunnina 3,1, sorphirðumálum (3,0), þjónustu við fatlaða einstaklinga (2,9) og skipulagsmál almennt (2,8).