Skip to main content

Þjónusta skerðist á sjúkrahúsinu í Neskaupstað vegna endurbóta á sjúkradeildinni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. jún 2025 12:41Uppfært 03. jún 2025 12:42

Fæðingarþjónusta fellur niður og röskun verður á þjónustu sjúkradeildar Umdæmissjúkrahúss Austurlands í Neskaupstað í júní vegna framkvæmda við húsnæði hennar. Unnið verður á vöktum til að vinna gangi sem hraðast fyrir sig.


„Þetta fer af stað út frá því að verið er að bæta brunavarnir á sjúkrahúsinu en það er löngu kominn tími á viðhald á deildinni. Það verður skipt um gólfefni og kerfisloft sem er ein af forsendum þess að hægt sé að nútímavæða deildina. Öll lækningatæki í dag þurfa nettengingar og fleira, þannig það verða settar nýjar lagnir.

En til þess að þetta gangi upp er ekki annað hægt en skerða starfsemina mikið,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Þarf að senda einhverja sjúklinga á aðrar stofnanir


Takmörkun á starfseminni verður frá 2. júní til 1. júlí. Á þeim tíma er gert ráð fyrir að fimm rými sjúkradeildar verði opin en að meðaltali liggja 15 manns inni á hverjum degi í venjulegum júní. Skurðstofa verður opin, myndgreining, rannsókn og bráðaþjónusta.

Fæðingarþjónustan verður lokuð sem þýðir að verðandi foreldrar þurfa að leita á aðrar heilbrigðisstofnunar í júní. „Þessi lokun á fæðingarþjónustunni kemur eins og aðrar slíkar illa við þá sem eru á þessum stað í lífinu. Ljósmæður okkar hafa aðstoðað fólk við að leita annað. Fólk ræður hvert það fer þótt flestir velji Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk),“ segir Guðjón.

Lokunin þýðir líka að tíu einstaklingar, sem annars hefðu legið inni á sjúkradeildinni, þurfa að vera vistaðir annars staðar. „Þetta þýðir að við tökum síðar við einstaklingum aftur frá til dæmis Landspítalanum. Það getur líka þurft að senda einstaklinga annað sem við hefðum annars sinnt.“

Bakvaktaþjónusta bætt á öðrum stöðum


Guðjón segir að lokunin eigi sér langan aðdraganda og hafi verið undirbúin vandlega. „Við veitum flókna og sérhæfða þjónustu og þess vegna höfum við fundað vikulega með mismunandi fagaðilum í marga mánuði. Við verðum með fleiri fagstéttir á bakvöktum á heilsugæslum annars staðar í fjórðungnum þannig við getum tekið meira þar inn.

Við höfum líka bætt bakvaktir hjá sjúkrabílunum. Þannig verða tvær bakvaktir á Egilsstöðum til að tryggja viðbragð ef senda þarf bílinn í lengri flutninga. Við höfum líka rætt við aðrar sjúkrastofnanir þannig þær séu tilbúnar að taka við fólki frá okkur.“

Reynt að velja tímann vel


Þess utan er gert það sem hægt er til að lágmarka röskun og tímasetningin valin þannig að samgöngur eigi að vera greiðar. „Við höfum samið við verktakann um að vinna á vöktum þannig örugglega verði hægt að opna aftur 1. júlí. Við vildum ekki gera þetta yfir veturinn þannig að það væru sem minnstar líkur á að færð spillti fyrir að við kæmum fólki til og frá. Við skoðuðum tölfræði til að sjá hvaða tími hentaði best og þetta á að vera áður en sumarumferðin byrjar.“

Guðjón ítrekar að ekki verði hjá endurbótunum komist og reynt sé að lágmarka óþægindi íbúa. „Þetta er nauðsynlegt til að halda áfram uppbyggingu. Við gerum okkar besta til að þetta gangi snurðulaust fyrir sig en það er viðbúið að svo mikilvæg þjónusta hafi áhrif á einhverja.“