Þörf á að fækka einbreiðum brúm í Norðausturkjördæmi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. nóv 2023 11:43 • Uppfært 08. nóv 2023 12:08
Af þeim 30 einbreiðu brúm sem eftir eru á Hringveginum eru 11 á Austurlandi. Einbreiðar brýr skapa flöskuhálsa á fleiri vegum á Austfjörðum.
Þetta kom fram í umræðum um tillögu að samgönguáætlun 2024-38 á Alþingi í síðasta mánuði. Berglind Harpa Svavarsdóttir, Sjálfstæðisflokki og Þórarinn Ingi Pétursson og Líneik Anna Sævarsdóttir, Framsóknarflokki, gerðu einbreiðu brýrnar í kjördæminu að umtalsefni.
Berglind Harpa byrjaði á að benda á brýrnar yfir Skjálfandafljót við Fosshól og Jökulsá á Fjöllum sem sérstaklega varasamar. Þórarinn Ingi lýsti brúnum yfir Jökulsá á Fjöllum sem „bogabrúm sem hanga í víravirki á einu stærsta og illvígasta vatnsfalli landsins.“
Líneik Anna benti á að af 30 einbreiðum brúm á landinu væru 11 á Austurlandi. Eins væri verk að vinna við nýja Lagarfljótsbrú. Hún benti á að þar á meðal væru fjórar einbreiðar brýr með óviðunandi burðarþoli á Suðurfjarðavegi. Hún sagði á þeim vegi langa kafla sem ekki uppfylltu öryggisstaðla en fagnaði því að framkvæmdir við Reyðarfjarðarbotn væru komnar á fyrsta tímabil áætlunarinnar. Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, minntist einnig á Suðurfjarðaveginn.
Uppsöfnuð þörf á viðhaldi
Í umræðunum var einnig rætt um ástand þjóðvega landsins. Viðhaldsþörf hefur aukist með aukinni umferð og þyngri ökutækjum. Viðhaldsskuld, sem safnast hefur upp undanfarinn áratug er metin á 70-80 milljarða. Framkvæmdir eru fyrirhugaðar um 15-25 milljarða á ári.
Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, sagði ekki óeðlilegt að stórir aðilar sem sköpuðu mikið álag á vegakerfið borguðu stærri hluta af kökunni. Ekki væri bara hægt að státa sig af því að leggja mikil verðmæti til þjóðarbúsins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sagðist vera tilbúinn að segja já við öllum nýjum framkvæmdum, auknu viðhaldi og vetrarþjónustu en meiri fjármunir væru ekki til ráðstöfunar. Þeir væru of litlir í viðhald og vetrarþjónustu.
Aukning til hafnamála
Vilhjálmur Árnason, varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, sagðist fagna áætlaðri viðbót í framkvæmdir við hafnarmannvirki. Ríkið ætlar að leggja 7,7 milljarða í hafnaframkvæmdir sem kosta alls 12,5 milljarða á fyrsta tímabili áætlunarinnar. Sigurður Ingi benti á að þar fyrir utan væru framkvæmdir stórra hafna, eins og Fjarðabyggðahafna, sem fjármagni sínar framkvæmdir að fullu með sjálfsaflafé.