Skip to main content

Þörf á samspili ólíkra varna til að verja Seyðisfjörð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. apr 2022 16:56Uppfært 12. apr 2022 16:56

Varnargarðar, drenholur, vöktunarkerfi og grjótnet þurfa að vinna saman til að hægt sé að verja byggðina á Seyðisfirði fyrir skriðuföllum. Það á hins vegar að vera gerlegt þannig að nær öll íbúðarhús í sunnanverðum firðinum verði framvegis á hættusvæði A, minnsta hættusvæði.


Þetta kom fram á íbúafundi sem haldinn var í Herðubreið á miðvikudag. Þar var kynnt frumathugun hættumats fyrir byggðina frá Búðar inn að Dagmálalæk. Áður hafði verið kynnt bráðabrigðamat fyrir hús við Stöðvarlæk. Matið nú breytir engu um að ekki er talið hægt að verja þau og búseta þar því bönnuð. Frumathugunin gengur út á að hanna varnir, meta getu þeirra og fýsileika á að reisa þær.

Í dag er hluti Austurvegar, Botnahlíðar, Bröttuhlíðar, Hafnargötu og Fossgötu inni á hættusvæði C, mesta hættusvæðinu. Með vörnum á að vera hægt að koma öllum húsum í sunnanverðum firðinum inn á hættusvæði A nema Þórshamri, utarlega við Hafnargötuna, sem verður á svæði B. Þórshamar er eitt þeirra húsa sem skemmdust í stóru skriðunni í desember 2020.

Vöktunin stóraukið öryggið

Varnir Seyðisfjarðar til framtíðar byggja á samspili mismunandi varnarkerfa, eins og Jón Haukur Steingrímsson frá verkfræðistofunni Eflu útskýrði. Þar á meðal er vöktunarbúnaðurinn, sem aukinn hefur verið verulega frá 2020. „Öll þessi kerfi hanga saman. Það er til dæmis ekki hægt að skera niður vöktunarhlutann.“

Jón Haukur sagði að í haust, þegar óttast var að ný skriða færi af stað við utanverða Búðar, hafi vöktunarkerfin saman sýnt þá virkni sem af þeim var vænst. Hann benti einnig á að í tilfellum aurskriðna væri hægt að sjá hættuna verða til, í desember 2020 hefðu verið „margir dagar af ofsalegri úrkomu.“

Þetta sé öfugt við snjóflóðahættu sem sé erfiðra að fylgjast með auk þess sem meiri líkur á að þau hlaupi snögglega af stað. „Við getum mælt og talað út frá mæligildum en ekki tilfinningu,“ sagði Jón Haukur. Áfram er unnið að eflingu vöktunarinnar.

Svelta vatnskerfið

Varnarkerfin sjálf eru síðan tvenns konar, annars vegar fyrirbyggjandi hátt í fjallinu, hins vegar til að bregðast við þegar skriða er fallin niður undir byggðinni. Uppi í Botnum þarf að koma í veg fyrir að vatn hlaðist upp í jarðveginum. Það er gert með afléttingarholum og drenskurðum. Skurðirnir verða allt að 5-7 metra djúpir en ofan í þá er mokað grjóti þannig á yfirborði sést rúmlega tveggja metra hátt far í jörðina. Reynt er að láta skurðina falla sem mest að landslaginu.

„Botnasvæðið er allt á hægfara hreyfingu í átt að bænum við viljum svelta það þannig hreyfingin hætti. Auðvitað skapar jarðvegurinn grunnástandið en vatnið breytileikann. Við viljum líka ná afrennsli, eins og í leysingum,“ sagði Jón Haukur um ástandið. Hann bætti við að mögulega væri hægt að ráðast fyrr í þessar varnir en aðrar, mögulega æskilegt því tíma þyrfti til að sjá hvaða árangri þær skiluðu og þá bregðast við ef hann væri takmarkaður.

Efla varnargarðana

Varnargarðar eru sá hluti varnanna sem bregst við ef þarf, bæði þvergarðar sem eiga að stoppa skriður og leiðigarðar sem eiga að beina þeim frá byggðinni niður farvegi. Að mestu veðrur fylgt þeim varnargörðum sem settir voru upp til bráðabirgða eftir flóðin 2020. Þá þarf hins vegar að styrkja og stækka. Þar verður mesta vinnan við innri Botnahlíðargarð og er viðbúið að nokkrar breytingar verði á landslagi.

„Leiðigarðar eru besti kosturinn því að er auðveldast að láta hlutina renna þar sem þeir vilja renna. Vegna þess hvernig klöppin hallar við Botnahlíðina er erfitt að láta þvergarðana standa þar. Samhliða því sem svæðið verður drenað verður öruggara að vinna þar með tæki. Ólíkt því sem gerist utar er ekki frjálst fall niður af hlíðinni. Aðgengið neðan frá er öruggara og gerlegra. Því er mögulegt að vinna með svæðið og það munum við gera,“ sagði Jón Haukur.

Talsverðar framkvæmdir þarf síðan við Dagmálalæk því vatni úr Botnum verður veitt í hann. Jón Haukur sagði að þær yrðu svipaðar og gert hefur verið í ánum á Eskifirði. „Farvegurinn þarf að vera hreinn og opinn alveg niður úr.“

Í klettahlíðinni ofan Botnahlíðar verður einnig sett upp grjóthrunsnet, til að grípa steina sem koma skoppandi niður hlíðina. Það getur einnig gripið litlar aurskriður auk þess sem það styrkir hlíðina því það er boltað í hana. Slík net eru þriðji hluti varnanna en þau verða á fleiri stöðum.

Gögn úr stóru skriðunni gera útreikningana öruggari

Útreikningar á virkni varnanna fór fram í tölvulíkönum. Samkvæmt þeim eiga garðarnir að geta ráðið við um 60.000 rúmmetra skriður. Slíkar skriður eru taldar geta komið niður við Búðará gefi sífrerinn undir Strandartindi eftir. Einhverjar skriðutungur gætu skvest yfir á Botnahlíðina ef garðarnir væru einir en vonast er til að aðrar aðgerðir eiga að draga enn frekar úr sem þýðir að þegar allt er talið verði byggðin svo að segja öll A-svæði. Jón Haukur sagði að oft væru slíkir útreikningar unnir út frá ágiskunum, það er að gefnar séu líklegar forsendur en styrkurinn á Seyðisfirði sé að hægt sé að nota gögnin frá skriðunum 2020 til að sýna hvernig ástandið geti orðið og jarðefni hegðað sér. Þess vegna eigi útreikningarnir að vera nokkuð traustir.

„Í stað þess að hópur fólki ímyndi sér breytur eru líkönin kvörðuð út frá stóru skriðunni. Því er þessi vinna á gerólíkum stað. Það er allt annað að hafa raunverulegar hreyfingar í fjallinu,“ sagði Jón Haukur.

Í samkeppni við fleiri hættusvæði um fjármagn

Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa verið með í frumathuguninni en stofnunin tekur nú hana til formlegrar meðferðar áður en hún verður staðfest sem nýtt hættumat. Eins er framundan vinna við mótvægisaðgerðir vegna jarðrasks og frágang á varnarmannvirkjunum. Fyrstu drög að því voru kynnt á fundinum, meðal annars stígakerfi þannig varnirnar nýtist til útivistar.

Stærsta spurningin sem út af stendur er hvenær framkvæmdir geti hafist. Hafsteinn Pálsson, starfsmaður ofanflóðasjóðs, sagði á fundinum að það yrði í fyrsta lagi eftir þrjú ár. Um eitt og hálft ár þurfi í umhverfismat og annað eins í verkhönnun, verðkönnun, útboð og verksamninga.

„Þetta er annars konar farmkvæmd en við höfum verið í fram að þessu og kallar á að við sækjum þekkingu erlendis, meðal annars í drenskurðina. Þess vegna þori ég ekki annað en reikna með lengri tíma en venjulega. Ef verkið er klárt í útboð eftir þrjú ár þá er það góður gangur,“ sagði hann.

En þótt þetta gangi upp þarf líka að vera tryggt fjármagn frá ríkinu, í gegnum ofanflóðasjóð, til að ráðast í framkvæmdirnar. Það veltur á fjárlögum hvers árs og Hafsteinn minnti á að víðar á landinu væri hætta sem þyrfti að verjast. „Við erum með ótal C-svæði um allt land. Auðvitað hefðu þau öll þurft að vera komin í skjól, strax í gær. Við erum í samkeppni við önnur ofanflóðaverkefni á landinu.“

Hann sagði ennfremur að líklegast væri að drenaðgerðirnar yrðu unnar samhliða öðrum vörnum. Þeir þurfi í umhverfismat og önnun eins og aðrir verkhlutar.

Seyðisfjörður með nýjum hættusvæðum og varnargörðum. Mynd: Efla