Þórdalsheiði lokuð næstu daga eftir vatnsskemmdir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. sep 2025 11:18 • Uppfært 10. sep 2025 11:38
Vegurinn yfir Þórdalsheiði verður lokaður næstu daga vegna skemmda sem urðu þar eftir mikla rigningu á mánudag. Leiðin inn í Snæfell hefur verið opnuð á ný.
Að sögn Hinriks Þórs Oliverssonar, verkstjóra Vegagerðarinnar á Reyðarfirði, er vegurinn í sundur í Brúðardal þar sem hann þverar ána. Mikill framburður er í vatnsföllum á leiðinni og í Brúðardal fylltust þrjú ræsi þannig að áin fann sér aðra leið og tók veginn í sundur.
Gert var við vatnsskemmdir á fleiri stöðum á veginum í gær og hreinsuð í burtu lítil grjótskriða sem féll á hann. Vegurinn verður lokaður næstu daga því ekki er hægt að gera við hann fyrr en vatnið í Brúðardalsá sjatnar.
Í Álftafirði er í dag unnið að viðgerð á Hringveginum við Grjótá. Hún fór upp úr farvegi sínum og át úr fyllingu. Vegurinn er þó opinn.
Leiðin inn í Snæfell var opnuð aftur í morgun en henni var lokað í gær vegna mikils vatns í ám á henni. Vegurinn er þó skemmdur.
Á Seyðisfirði þarf að skipta um ræsi á leiðinni inn í bæinn en vatn flæddi yfir veginn þar í gær. Í það verk verður gengið með hraði.
Öxi var lokað á mánudagskvöld þar sem Yxnagilsá flæddi yfir veginn. Vegurinn er vægast sagt ósléttur en ekki er hægt að hefla hann og laga fyrr en hann þornar.
Leiðin til Mjóafjarðar var lokuð fyrri partinn í gær eftir að ræsi gaf sig í Slenjudal. Búið er að gera við það til bráðabirgða og vegurinn því opinn.
Á leiðinni inn að Þórdalsheiði. Mynd úr safni.