Þrátt fyrir ríkan vilja tókst ekki að bjarga Auðbjörgu
Eikarbátnum Auðbjörgu sem smíðaður var árið 1963 á Fáskrúðsfirði og var einn af allra síðustu eikarbátum sem smíðaðir voru í landinu hefur verið fargað. Báturinn, sem var í eigu og umsjón Tækniminjasafnsins á Seyðisfirði, reyndist of skemmdur og fúinn til að viðgerð borgaði sig.
Þar með lauk sorgarsögu þessa báts sem gefinn var Tækniminjasafninu fyrir margt löngu. Þá strax voru gerðar áætlanir um endurbætur, viðhald hans og varðveislu og þar ráðgert að nýta slipp Vélsmiðjunnar til þess verks. Þær áætlanir runnu út í sandinn í fjármálahruninu 2008 en þá röskuðust allar rekstrarforsendur safnsins.
Síðan þá hefur báturinn staðið utandyra og ástand hans versnað ár frá ári en auk þess skemmdist hann töluvert í óveðrinu mikla í september á síðasta ári. Var svo komið að af bátnum stafaði bæði slysa- og fokhætta og tók stjórn Tækniminjasafnsins þá ákvörðun að farga honum í vor.
Elfa Hlín Sigrúnar Pétursdóttir, safnstjóri, segir miður að svona hafi þurft að fara og ákvörðunin hafi sannarlega verið erfið.
„Til að varðveita svona skip með góðu móti þarf það annaðhvort að vera innandyra eða á floti en í þessu tilfelli var báturinn búinn að vera upp á landi í fimmtán ár. Við skoðuðum það vel að varðveita hann með öðrum hætti eins og til dæmis sem leiksvæði fyrir krakka. En í þessu slæma veðri þarna í september í fyrra þegar Angró fór þá skemmdist hann enn meira. Það hefði orðið mjög kostnaðarsamt að koma honum í stand á ný.“
Elfa Hlín segir þó bót í máli að annar sams konar eikarbátur, Rex, sem einnig var framleiddur sama ár á Fáskrúðsfirði, hafi lengi staðið á Fáskrúðsfirði þótt hann sé nú í endurbótum. Það sé því enn til sæmilegt eintak af þessum sögufrægu bátum og sú staðreynd hafi auðveldað þá erfiðu ákvörðun að farga Auðbjörgu.
Punktur á sorgarsögu eins síðasta eikarbáts sem framleiddur var á Íslandi. Mynd Tækniminjasafnið