Skip to main content

Þreifingar um vindmyllugarð í Fljótsdalshreppi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. feb 2022 11:53Uppfært 14. feb 2022 11:54

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps skoðar nú hvort sveitarfélagið mun skrifa undir viljayfirlýsingu við Orkugarð Austurlands vegna fyrirhugaðs vindmyllugarðs sem síðarnefnda félagið vill skoða að setja upp í hreppnum.

Orkugarður Austurlands (OGA) er samheiti yfir félög og fyrirtæki sem skoða að reisa grænan orkugarð í Reyðarfirði en meginhlutverkið er að þróa leiðir sem gagnast við nauðsynleg orkuskipti framtíðarinnar.

Verkefnið er allt á algjöru byrjunarstigi segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps. Ljóst sé að það þurfi meiri orku inn á raforkukerfið vegna framtíðaráætlana á Reyðarfirði og OGA sjá vindorku fyrir sér sem góðan kost til þess. Áætlanir séu ekki komnar langt á veg heldur sé meira um fyrstu þreifingar að ræða.

„Við skoðum þetta með opnum augum hér í hreppnum enda sjálfsagt að skoða allt slíkt ofan í kjölinn. Þetta er vissulega það sem koma skal í einhverju marki í framtíðinni. Við hér erum reyndar svo heppin að allt sveitarstjórnarfólk er mjög vel að sér í hvers kyns orkumálum enda við með Kárahnjúka og Fljótsdalsvirkjun hér í bakgarðinum svo að segja, þekkjum allt þetta ferli vel og förum okkur varfærnislega.“