Þremur regnbogafánum stolið í viðbót
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. sep 2023 18:01 • Uppfært 01. sep 2023 18:02
Þremur regnbogafánum, sem héngu uppi við mannvirki Fjarðabyggðar á Reyðarfirði, var stolið í nótt. Þeir bætast við fána sem stolið var þar og á Egilsstöðum fyrr í ágústmánuði.
Fánarnir þrír sem hurfu í nótt voru annars vegar við skrifstofur fjölskyldusviðs, hins vegar við smábátahöfnina. Vika er síðan fáni var tekinn af flaggstöng við bæjarskrifstofurnar.
Aðra helgina í ágúst voru fánar við opinber mannvirki á Egilsstöðum teknir niður. Einn þeirra eyðilagðist í atganginum en þeir voru skildir eftir á jörðinni.
Í tilkynningu Fjarðabyggðar segir að æ algengara verði að regnbogafánar, sem blakta til stuðnings samfélagi hinsegin fólks, séu rifnir niður. Það sé áminning um mikilvægi baráttunnar.
Til hafi staðið að taka fánana í Fjarðabyggð niður nú um mánaðamótin en vegna þessara atburða hafi verið ákveðið að halda áfram að flagga þeim. Nýir fánar séu keyptir strax til stuðnings hinsegin samfélaginu og sé flaggað um leið og þeim berast.
Málið hefur eins og hin fyrri verið tilkynnt til lögreglu. Þar fengust þær upplýsingar að málin væru öll í rannsókn.
Tvær auðar flaggstangir við smábátahöfnina á Reyðarfirði í morgun. Mynd: Fjarðabyggð