Þrettán hlaupa Reykjavíkurmaraþon fyrir Krabbameinsfélag Austfjarða
Einir þrettán einstaklingar sem munu hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á morgun safna áheitum til handa Krabbameinsfélagi Austfjarða. Um sjö hundruð þúsund krónur hafa þegar safnast.
Flestir eða allir þeir sem þátt taka í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hlaupa ekki aðeins fyrir sjálfa sig og sína heilsu heldur og fyrir tiltekin góðgerðarsamtök vítt og breitt um landið. Getur hver sem er heitið ákveðinni upphæð á hvern einstakling og ljúki viðkomandi hlaupinu fer sú upphæð beint til þess góðgerðarfélags sem hlaupið er fyrir.
Að þessu sinni hafa þrettán einstaklingar skráð sig til keppninnar á morgun fyrir hönd Krabbameinsfélags Austfjarða og fer allur stuðningur við þá þrettán rakleitt til félagsins. Það félag heldur utan um flesta þá á Austurlandi sem annaðhvort þjást af krabbameini eða ættingja og vini þeirra sem berjast við þann sjúkdóm.
Hrefna Eyþórsdóttir, framkvæmdastýra Krabbameinsfélags Austfjarða, segist nánast klökk yfir þessum mikla stuðningi við félagið enda komi hver einasta króna sér vel í starfið.
„Nú skal ég ekki segja til um hvort fleiri hafi áður hlaupið fyrir hönd félagsins en þetta er ótrúlega góður stuðningur og kemur sér sannarlega vel. Mér sýndist fyrr í dag að um sjö hundruð þúsund krónur hefðu safnast og enn er tími til stefnu að heita á þessa flottu hlaupara.“
Hægt er að heita á hvern hlaupara á vefnum hlaupastyrkur.is allt fram að hlaupinu sjálfu í fyrramálið.