Þrettán í framboði til forseta

Þrettán einstaklingar hafa skilað inn undirskriftalistum vegna framboðs til forseta Íslands. Þeir eru á ferð um landið til að kynna sig og hitta fólk. Katrín Jakobsdóttir, fyrrum forsætisráðherra verður eystra um helgina.

Þrettán einstaklingar skiluðu inn undirskriftunum en landskjörstjórn fer á næstunni yfir listana og úrskurðar um lögmæti.

Af þessum einstaklingum á Ásdís Rán Gunnarsdóttir trúlega sterkust tengsl við fjórðunginn þar sem hún er fædd á Egilsstöðum og bjó á svæðinu fram á unglingsár.

Þótt framboðsfrestur hafi ekki verið runninn út þá hafa nokkrir frambjóðendur þegar komið á svæðið. Ástþór Magnússon var á svæðinu í mars, meðal annars við að safna undirskriftum en hann hélt einnig opna fundi.

Arnar Þór Jónsson var með opinn fund á Egilsstöðum nú í apríl. Í sömu viku var Baldur Þórhallsson á ferðinni ásamt manni sínum, Felix Bergssyni. Þeir buðu Austfirðingum í vöfflukaffi og heimsóttu fyrirtæki og stofnanir.

Á sunnudag kemur Katrín Jakobsdóttir ásamt manni sínum Gunnari Sigvaldasyni. Þau byrja á Egilsstöðum á sunnudagsmorgunn, fara síðan á Norðfjörð, Fáskrúðsfjörð, Breiðdalsvík og Höfn þann dag en síðan Djúpavog og Seyðisfjörð á mánudag.

Ljóst er að mikið verk verður hjá frambjóðendum að fara um landið þann rúma mánuð er til kosninga. Ekki liggur fyrir hvort þeir nái allir að heimsækja Austurland, eða hvort þeir komi oftar en einu sinni.

Eftirtalin skiluðu í dag inn undirskriftalistum:


Arnar Þór Jónsson
Ásdís Rán Gunnarsdóttir
Ástþór Magnússon Wium
Baldur Þórhallsson
Eiríkur Ingi Jóhannsson
Halla Hrund Logadóttir
Halla Tómasdóttir
Helga Þórisdóttir
Jón Gnarr
Katrín Jakobsdóttir
Kári Vilmundarson Hansen
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir
Viktor Traustason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.