Þrettán ný smit
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. feb 2022 16:25 • Uppfært 01. feb 2022 16:31
Þrettán ný Covid-19 smit bættust við á Austurlandi í gær. Tæplega 50 manns eru nú í einangrun eystra vegna veirunnar.
Skráð smit eystra eru 48, flest í Fjarðabyggð. Í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi segir að mörg smitanna í gær hafi verið meðal ungmenna í Neskaupstað.
Bólusetningar halda áfram af fullum þunga í fjórðungnum. Seinni bólusetning meðal 5-11 ára er í skólum um allan fjórðung í vikunni. Bæði eru fastir og opnir tímar í boði á flestum stöðum. Bólusetning fyrir fullorðna var á Eskifirði í morgun en verður á Egilsstöðum, Djúpavogi og Vopnafirði á morgun. Nánari upplýsingar um bólusetningarnar eru á www.hsa.is eða á netfangið
Á föstudag var tilkynnt um afléttingar samkomutakmarkana þar sem fyrstu skrefin voru stigin um helgina. Þótt vegferðin sé hafin hvetur aðgerðastjórnin sem fyrr íþróttafélög, félagasamtök, fyrirtæki og íbúa til árvekni í hvívetna.
„Smit eru enn á sveimi og starfsemi heilbrigðisstofnanna meðal annars viðkvæm vegna einangrunar og sóttkvíar starfsmanna sem þeim fylgja. Órofinn rekstur er því ekki sjálfgefinn enn sem komið er. Förum varlega þennan spöl sem vonandi er sá síðasti í þessu tveggja ára klöngri okkar.“