Þriggja milljarða fjárfesting HEF næstu fjögur árin
Stjórn HEF samþykkti fyrir skömmu fjárfestingaráætlun fyrirtækisins til ársins 2027 en þar er gert ráð fyrir að fjárfest verði þann tíma fyrir rétt rúma þrjá milljarða króna.
Á næsta ári er gert ráð fyrir 605 milljónum króna til verkefna, rétt rúmum milljarði 2025, 665 milljónum 2026 og 681 milljón 2027. Það verður því töluvert meira framkvæmt 2025 en hin árin. Áætlunin tekur nokkurt mið af töluvert erfiðum aðstæðum til lántöku vegna aðstæðna á fjármálamörkuðum og þar sérstaklega hárri verðbólgu en verkefni HEF verða meira og minna fjármögnuð með lántökum. Vonir standa til að lántökukostnaður minnki þegar fram líða stundir.
Á næsta ári eru það fráveitumál sem reynast munu dýrasti bitinn en af þeim 605 milljónum sem skulu til fjárfestingu á komandi ári eru 388 milljónir af því eyrnamerktar þeim málum. Þar sérstaklega frekari hreinsun á fráveituvatni frá Egilsstöðum. Af því tilefni lét Helgi Hlynur Ásgrímsson, einn stjórnarmanna, bóka sérstaklega óánægju með að stuðningur ríkisins taki ekkert mið af landfræðilegum aðstæðum. Aðspurður um þá bókun bendir Helgi á að Lagarfljótið sé skráður jafn viðkvæmur viðtaki frávatns og Mývatn sem sé lítið annað en kjánalegt.
„Það er eitt og annað athugavert við það því þess er krafist að hámarkshreinsun fari fram á þeim stöðum þar sem viðtakandi er talinn viðkvæmur. Þó Lagarfljótið sé sannarlega perla þá kannski jafnast fljótið ekki á við Mývatnið í því tilliti og aðstæður mjög frábrugðnar á milli þessara staða. Mér sýnist reyndar útlit fyrir að kröfur um hreinsun verði enn auknar frá því sem nú er og fyrirséð að þrátt fyrir há fráveitugjöld muni þau ekki standa undir fjárfestingu fyrirsjáanlegra framkvæmda.“
Að Lagarfljótið sé talið jafn viðkvæmt og Mývatn hvað frárennsli varðar skýtur skökku við en það kallar á dýrar framkvæmdir.