Skip to main content

Þrír einstaklingar létust í flugslysinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. júl 2023 22:52Uppfært 09. júl 2023 23:04

Allir þrír einstaklingarnir, sem voru um borð í flugvél sem leitað var að milli Skriðdals og Fljótsdals í dag, eru látnir.


Í tilkynningum lögreglunnar á Austurlandi og Landhelgisgæslunnar segir að stjórnstöð gæslunnar hafi klukkan 17:01 borist boð úr neyðarsendi lítillar Cessna-flugvélar.

Strax var haft samband við flugstjórnarmiðstöðina sem staðfesti að vélin hefði verið á flugi yfir Austurlandi og að um borð væru flugmaður og tveir farþegar. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki samband við vélina.

Landhelgisgæslan ber ábyrgð og stýrir leit að týndum loftförum. Hún kallaði út þyrlu ásamt björgunarsveitum á Austurlandi auk þess sem Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð var virkjuð.

Óskað var eftir að áætlunarflugvél Icelandair á leið til Egilsstaða svipaðist um eftir flugvélinni. Fisflugvél frá Egilsstöðum og ferðaþjónustuþyrla úr Möðrudal leituðu líka, ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita á landi.

Klukkan 19:01 fannst vélin þar sem hún hafði brotlent við Sauðahnjúka, milli Hornbrynju og Hraungarða. Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti þar við. Allir einstaklingarnir sem höfðu verið um borð í Cessna-vélinni voru úrskurðaðir látnir á vettvangi.

Í framhaldinu færðist forræði aðgerðarinnar frá Landhelgisgæslunni til Lögreglunnar á Austurlandi, sem stýrir nú aðgerðum á vettvangi og fer með rannsókn málsins ásamt Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Þyrla frá Landhelgisgæslunni er lögreglu og starfsmönnum Rannsóknarnefndar samgönguslysa til aðstoðar við störf á vettvangi.

Rannsókn er á frumstigi og ekki hægt að gefa frekari upplýsingar að svo stöddu, samkvæmt tilkynningu lögreglu.