Skip to main content

Þrír milljarðar í hagnað hjá Eskju í fyrra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. jún 2025 17:13Uppfært 25. jún 2025 17:16

Sjávarútvegsfyrirtækið Eskja á Eskifirði hagnaðist um þrjá milljarða króna í fyrra, eftir skatta. Loðnubrestur dró þó úr umsvifum félagsins.


Þetta kemur fram í árs- og samfélagsskýrslu Eskju fyrir árið 2024 sem kom út nýverið. Rekstrartekjur félagsins í fyrra voru 15 milljarðar en rekstrargjöld 10 milljarðar. Hagnaðurinn var þrír milljarðar eftir skatta. Þessar tölur eru allar svipaðar og árið áður. Arðgreiðslur námu 1,2 milljarði í stað 1,9 áður.

Breytingar vegna loðnubrests


Skip félagsins veiddu 78 þúsund tonn í fyrra, samanborið við 106 þúsund tonn árið 2023 en þá var óvenju stór loðnuvertíð. Aflinn árið 2022 var 99 þúsund tonn.

Í ávarpi Páls Snorrasonar, framkvæmdastjóra, segir að til að bregðast við loðnuleysi hafi verið ákveðið að kaupa kolmunna frá erlendum skipum sem hafi reynst rétt ákvörðun. Eskja keypti meðal annars það sem er talinn vera stærsti kolmunnafarmur sögunnar af færeysku skipi.

Vegna loðnuleysis var ákveðið að leggja einu skipa félagsins, Guðrúnu Þorkelsdóttur og auglýsa til sölu. Farið var í samstarf við Brim um veiði á makríl. Hún fór ágætlega af stað en brást í ágúst. Veiðisamstarfinu var ekki haldið áfram, Guðrún hefur nú verið tekin af söluskrá og er farin til makrílveiða.

Alls tók Eskja á móti 119 þúsund tonnum af hráefni og framleiddi 19.600 tonn af uppsjávarafurðum, 6.900 minna en árið áður. Vinnsla í uppsjávarfrystihúsi félagsins var í fjóra mánuði. Fastráðnir starfsmenn voru 85 allt árið en 30-40 bætast við á vertíð.

Mest keypt af innlendum birgjum


Skattgreiðslur frá félaginu voru 2,6 milljarðar, þar af um milljarður vegna launa starfsfólks og mótframlags í lífeyrissjóð. Af beinum sköttum fyrirtækisins munaði mest um 730 milljónir í tekjuskatt og 280 milljónir í veiðigjöld.

Félagið setti 27,6 milljónir í styrki í nærsamfélaginu, mest í menningarstarf eða 12 milljónir. Fram kemur í ársskýrslunni að það hafi fjárfest fyrir 15 milljarða á Eskifirði undanfarin 10 ár. Eskja kaupir nær allar sínar vörur og þjónustu frá innlendum birgjum, þar af hátt í 40% úr nærumhverfinu.