Þrír snjóflóðaleitarhundar útskrifaðir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. mar 2022 08:45 • Uppfært 22. mar 2022 10:38
Þrír snjóflóðaleitarhundar af Austurlandi útskrifuðust með réttindi til starfa á námskeiði sem haldið var á Ísafirði um síðustu helgi.
Tveir hundar luku A-prófi, sem þýðir að þeir teljast hafa full réttindi og eru í forgangi við útköll en einn hundur lauk B-prófi sem gefur réttindi til starfa. Hundarnir eru staðsettir í Neskaupstað, Reyðarfirði og í Breiðdal.
Að baki A-réttindum er yfirleitt að minnsta kosti þriggja ára þjálfun. Hundarnir þurfa síðan reglulega að standast próf til að viðhalda réttindum sínum.
„Hundurinn þarf meðal annars að sýna að hann geti unnið á svæði þar sem er mikil truflun, svo sem flygildi, tæki, fólk að koma og fara án þess að missa einbeitinguna,“ segir Sólveig Lilja Ómarsdóttir, eigandi Dívu sem um helgina öðlaðist A-réttindi.
Meðal þeirra verkefna sem hundarnir þurftu að leysa um helgina var að finna manneskju sem grafin var undir snjó á fjögurra metra dýpi.
Sólveig og Díva lengst til vinstri ásamt tveimur öðrum leitarhundum og eigendum. Mynd: Aðsend