Þrjú veiðiskip við bryggju á Reyðarfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. okt 2023 14:08 • Uppfært 19. okt 2023 16:40
Þrjú stór veiðiskip hafa síðustu vikur legið bundin við bryggju á Reyðarfirði. Slíkt hefur verið fáheyrt í seinni tíð en grænlensku veiðiskipin Polar Amaroq og Polar Ammassak komu þangað að lokinni makrílvertíð.
„Við kláruðum makrílvertíðina og höfum beðið eftir að komast á kolmunna. Polar Amaroq fer út um mánaðamótin. Í kjölfarið er stefnt á norsk-íslenska síld þegar hún gengur út úr lögsögunni,“ segir Geir Zoéga, skipstjóri á Polar Amaroq.
Jón Kjartansson SU-311 hefur undanfarin ár verið í höfninni á Reyðarfirði en skipið var auglýst til sölu eftir að nýtt skip Eskju fékk það nafn sumarið 2017. Grænlensku skipin tvö eru síðan í eigu Polar Pelagic, dótturfélags Síldarvinnslunnar.
Skipið sem í dag heitir Polar Ammassak hét einmitt áður Polar Amaroq. Nýrra skipið var keypt árið 2013 en lítur vel út enda nýkomið úr slipp. „Það var byggt yfir Polar Amaroq í vor. Þar með er búið að nútímavæða hann. Hinn fer í skveringu næsta sumar,“ segir Geir.
Polar Amaroq er aðalskip Polar Pelagic. Á það eru ráðnar tvær áhafnir auk nokkurra einstaklinga á Polar Ammassak. Þegar mikið gengur á er eldra skipið ræst út og hluti áhafnarinnar færri sig á það. „Við höfum gert það á makrílveiðum og þegar gefnir hafa verið út stórir kvótar, svo sem í loðnu.“
Geir segir vel fara um skipin á Reyðarfirði. „Það er gott að vera fyrir austan. Á Reyðarfirði er minni umferð en í mörgum öðrum höfnum. Síðan spillir ekki fyrir að við höfum heimamann, Þorstein Aðalsteinsson, sem passar skipin fyrir okkur.“