Skip to main content

Þurfti að ganga nokkurn spöl til að óska eftir aðstoð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. ágú 2023 11:50Uppfært 14. ágú 2023 11:55

Samferðamaður slasaðs göngumanns á Borgarfirði þurfti að ganga þó nokkurn spöl til að óska eftir aðstoð á laugardag en fjarskiptasamband er þar víða slitrótt. Björgunin sjálf gekk annars hratt og vel fyrir sig.


Það var í hádeginu á laugardag sem óskað var eftir aðstoð vegna göngumanns sem hafði trúlega ökklabrotnað að göngu á leiðinni að Urðarhólavatni.

Urðarhólavatn inn af Borgarfirðinum sjálfum. Í tilkynningu Landsbjargar segir að ekkert símasamband hafi verði á slysstaðnum og því hafi annar einstaklingur úr gönguhópnum þurft að ganga nokkurn spöl til að komast í símasamband og hringja eftir hjálp.

Björgunarsveitarfólk frá Sveinunga á Borgarfirði var komið á staðinn um hálftíma eftir að útkallið barst og göngumaðurinn kominn í sjúkrabíl frá Egilsstöðum um einum og hálfum tíma eftir símtalið.

„Ég myndi segja að þetta hafi gengið mjög vel. Sjúkrabíllinn er ræstur út á sama tíma og við og er kominn á staðinn á einum og hálfum tíma,“ segir Hjálmar Elías Baldursson sem var í stjórnstöð á laugardaginn en um fimmtán félagar í Sveinunga tóku þátt í útkallinu.

Rigning var á svæðinu og talið er að göngumaðurinn hafi runnið til á leiðinni. „Hópurinn sem var með manneskjunni hafði búið mjög vel um hana,“ segir Hjálmar.

Um fjarskiptasambandið á svæðinu segir hann að til viðbótar við gloppótt símasamband sé þekkt að samband fyrir tetra-kerfi björgunarsveita og viðbragðsaðila sé dapurt á Austfjörðum. Á laugardaginn hafi VHF-talstöðvar reynst hvað best til að halda sambandi við björgunarsveitarfólk á vettvangi.

Sumarið hefur annars verið tíðindalaust hjá björgunarsveitafólki á Borgarfirði. „Sem betur fer hafa ekki verið nein önnur útköll í sumar. Það er gott miðað við þann fjölda sem er hér allt í kring á göngu,“ segir Hjálmar.

Mynd: Landsbjörg