Skip to main content

Þurfti að snúa aftur til Reykjavíkur vegna ókyrrðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. jún 2023 10:17Uppfært 27. jún 2023 10:18

Snúa þurfti áætlunarflugi Icelandair frá Reykjavík til Egilsstaða á sunnudagskvöld við vegna mikillar ókyrrðar í lofti. Aðstæður versnuðu á meðan vélin var í loftinu.


Farþegi um borð í vélinni segir að áhöfnin hafi látið vita af mögulegri ókyrrð áður en byrjað var að lækka sig úr flughæð. Síðan hafi tekið við hristingur þegar Lagarfljótið nálgaðist sem stóð linnulaust í það sem virtust 10-15 mínútur.

Á vefnum Flightradar24 er hægt að rekja feril vélarinnar. Þar sést hvernig beygt er út með norðanverðu fljótinu við mörk Fljótsdalshrepps og Múlaþings og flogið þaðan yfir flugvöllinn og út undir Eiða. Þar beygir vélin og flýgur aftur yfir völlinn áður en hún tekur stefnuna suður aftur.

Farþeginn segir að vélin hafi virst föst í loftinu því hún hafi aldrei lækkað sig neitt að ráði í átt að flugvellinum. Hann segir fólkið hafa sýnt ró, ekki síst til að vekja ekki ótta hjá fjölda barna um borð. Lætin hafi hins vegar ekki verið neitt venjuleg.

Í svari Icelandair við fyrirspurn Austurfréttar segir að ókyrrð við flugvelli hérlendis sé algeng. Slíkar aðstæður hafi myndast við Egilsstaði á sunnudag. Ókyrrðar hafi orðið vart fyrr um daginn í flugi en þá verið hægt að lenda.

Þegar kom að aðflugi kvöldvélarinnar hafði skýjafar breyst þannig að erfiðra var að komast framhjá ókyrrðinni. Að auki var orðið hvassara en spáð var. Flugmennirnir mátu aðstæður á þann veg að ókyrrðin væri orðin það mikil að öruggast væri að snúa við til Reykjavíkur.

Áhöfn talaði við farþega sem upplifðu óþægindi eftir að vélin var lent og fór yfir það sem gerðist. Óskað var eftir áfallahjálp, eins og gert er þegar ókyrrð verður mikil, en flestir farþegar voru farnir af flugvellinum áður en áfallateymið kom.