Þurfum að búa okkur undir að vont veður standi lengur
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. sep 2023 17:05 • Uppfært 25. sep 2023 17:05
Í dag er ár liðið síðan aftakastormur gekk yfir Austurland. Einna mest varð tjónið á Reyðarfirði, sérstaklega í Mjóeyrarhöfn, þar sem miklar skemmdir urðu á húsum og gámar lágu nánast eins og hráviði um svæðið.
„Við erum ekki óvön hraustlegum lægðum en eftir þetta heyrði ég veðurfræðing nota orðið „langviðrasamt.“ Með því er átt við þegar sama veðurkerfið er fast í lengri tíma.
Það átti líka við í snjóflóðavikunni í lok mars þegar það var stanslaus úrkoma,“ segir Jón Björn Hákonarson, fyrrum bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
„Þessir dagar eru öllum í fersku minni. Veðrið var svo ofsafengið og stóð lengi,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.
Tjón um allt Austurland
Árið 2017 hóf Veðurstofan að gefa út veðurviðvaranir með litakóða. Árið 2019, í aðventustorminum, kom fyrsta rauða viðvörunin og voru þær tvær. Árið 2020 voru þær fjórar en svo 10 í fyrra, þar á meðal rauð viðvörun fyrir Austfirði þá daga sem veðrið gekk yfir.
Tjón varð víða á Austurlandi í veðrinu. Uppi á Möðrudalsöræfum buldi sandur og möl á bílum þannig rúður mölbrotnuðu og bílarnir stórskemmdust. Fólk komst við illan leik í skjól í Möðrudal. Á Seyðisfirði gáfu undirstöður hins sögufræga húss Angró sig endanlega. Fjárhús splundruðust í Breiðdal.
Rafmagni sló út enda brotnaði fjöldi staura. Á svæðinu kringum Djúpavog voru rafmagnstruflanir næstu daga á eftir vegna seltu sem sest hafði á línur í veðrinu. Þar urðu líka miklar skemmdir í Hálsaskógi. „Tré kubbuðust í sundur í tuga ef ekki hundraðatali,“ rifjar Kristján Ólafur upp
Hús sprungu á Reyðarfirði
Mestur varð skaðinn á Reyðarfirði. Inni í bænum fauk allt sem fokið gat, tré brotnuðu og skemmdir urðu á húsum. Úti í Mjóeyrarhöfn sviptust veggir af byggingum og gámar fuku.
„Mér eru minnisstæðar lýsingar sem fylgdu tilkynningum frá tveimur húsum. Fyrst var tilkynnt um að slökkvistöðin hefði sprungið. Mér fannst það undarlega orðað og hélt fólk væri farið að fara fram úr sér. Stuttu síðar barst sama lýsing frá íbúðarhúsi á Reyðarfirði.
Þegar maður skoðaði aðstæður þá kom í ljós að þetta var eina rétta lýsingin. Á slökkvistöðunni henti vindurinn inn stórum flekahurðum og sprengdi sig út hinu megin. Ein af þeim fjórum flekahurðum sem fóru hefur ekki fundist enn,“ segir Kristján Ólafur.
„Þar sprungu speglar á snyrtingum vegna hreyfinga í veggjunum og brestir komu í eina hliðina. Það bjargar stöðinni að það fór að blása í gegnum hana. Ég hef séð garðskúra eða hjólhýsi splundrast en ekkert svona. Það er mildi að enginn hafi slasast,“ bætir Jón Björn við.
Viðgerðum loks að ljúka
Í veðrið gekk um hádegi á sunnudag og ekki lægði að ráði fyrr en seinni part mánudags. Rauða viðvörunin var í gildi frá 12 á sunnudegi til 15 á mánudegi, töluvert lengur en upphaflega var áætlað enda dýpkaði lægðin hratt.
Jón Björn segir að í framtíðinni verði að gera ráð fyrir veðrum sem þessu. „Veður eins og þetta eru ný viðbót í náttúruhamfaraflóruna okkar. Við festumst í fellibylsstyrk í 24 tíma. Við þurfum að vera taka það með í okkar undirbúning framvegis og ganga vel frá þar sem hægt er.“
Í framhaldinu tók við talsverð vinna í tiltekt og viðgerðum. „Eftirfylgnin stendur í raun enn. Fyrst nú er verið að ljúka öllum viðgerðum,“ segir Jón Björn að lokum.