Skip to main content

„Þurfum byggðastefnu sem beinir fólki til landsbyggðanna – ekki frá þeim“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. maí 2025 16:19Uppfært 13. maí 2025 16:25

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, gerði byggðastefnu í jómfrúarræðu sinni á Alþingi en þar situr hún þennan mánuðinn. Hún gagnrýndi árangurslitla byggðastefnu undanfarinna áratuga og skoraði á ríkisstjórnina að gera betur.


„Þrátt fyrir áratuga tilraunir hefur okkur ekki tekist að móta og innleiða raunsæja og áhrifaríka byggðastefnu með skýrum hvötum og leiðum sem beina fólki á landsbyggðirnar með markvissum hætti.

Hingað til hefur stefnumörkunin einkennst af tilviljanakenndum ákvörðunum, teknum á ólíkum tímum og án samhæfingar. Afleiðingin er sú að fólki, stjórnsýslu og umsýslu hins opinbera er sífellt beint inn á sama svæðið,“ sagði Jónína.

Hún sagði að slíkt gæti ekki talist skynsamlegt fyrir þjóð í svo víðfeðmu land. Jónína taldi upp að í dreifbýlinu væri nóg pláss, húsnæði á sanngjörnu verði, gott framboð af lóðum, pláss á leikskólum og nálægð við náttúruna.

Jónína kvaðst vera ein þeirra fáu sem byggju utan Hvítánna, en með því er vísað til Hvítar í Borgarfirði annars vega og Hvítár á Suðurlandi, sem verður að Ölfusá er Sogið bætist út í hana rétt ofan við Selfoss. Áætlað er að 80% landsmanna búi á þessu svæði.

Opinberum störfum fjölgar hraðar á milli Hvítánna


Hún sagði utan Hvítánna væri næga atvinnu að hafa og þar ætti verðmætasköpun sér stað í sjávarútvegi, orkuvinnslu, stóriðji, ferðaþjónustu og fleiru. Þar skorti hins vegar opinber störf og þeim hafi fækkað á síðustu árum.

Sú fullyrðing stenst ekki fulla skoðun út frá mælaborði Byggðastofnunar, sem heldur utan um staðsetningu opinberra starfa. Samkvæmt henni hefur opinberum störfum fjölgað utan Hvítánna jafnt og þétt síðustu tíu ár.

Mælaborðið sýnir hins vegar að hlutfallslega fjölgar opinberum störfum milli Hvítánna hraðar heldur en annars staðar. Þá hafa þau líka um langa hríð verið mun hærra hlutfall af starfamarkaði þar heldur en annars staðar.

Nýlendustefna í garð landsbyggðanna?


Jónína hvatti ríkisstjórnina til að breyta stefnu sinni, stuðla að fjölgun opinberra starfa á landsbyggðunum og leggja fram skýra aðgerðaáætlun um styrkingu frekar en auka álögur á atvinnuvegina sem haldi dreifbýlinu gangandi. „Maður veltir því fyrir sér hvort markmiðið sé að þjóðnýta endanlega landsbyggðina,“ sagði Jónína og var þar væntanlega að gagnrýna boðaða hækkun veiðigjalda.

Hún gagnrýndi líka nýlegar breytingar á stjórnum ríkisfyrirtækja þar sem fulltrúum af landsbyggðinni hefur fækkað hratt. „Ég vil sérstaklega mótmæla þeirri eins konar nýlendustefnu að treysta ekki íbúum landsbyggðanna til að reka og stýra þeim opinberu fyrirtækjum sem nánast eingöngu hafa starfsemi sína þar. Ég hvet núverandi ríkisstjórn til að gera betur. Við þurfum byggðastefnu sem beinir fólki til landsbyggðanna, ekki frá þeim.“

Jónína er varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Hún situr á þingi í maí í fjarveru Þórarins Inga Péturssonar sem er í sauðburði.