Skip to main content

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti fjallgöngumann í sjálfheldu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. sep 2023 10:48Uppfært 01. sep 2023 10:52

Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði björgunarsveitir á Austfjörðum í gær við að ná til ungs manns sem hafði lent í sjálfheldu í klettabelti í Fáskrúðsfirði. Aðgerðin var töluvert snúin enda afar bratt á svæðinu og komið fram í myrkur.


Útkallið barst upp úr klukkan 20 í gærkvöldi. Ungur karlmaður hafði farið í fjallgöngu og klifrað upp í tæplega 500 metra hæð í Tunguröð, klettabelti milli Daladals og Tungutals inn af Fáskrúðsfirði.

Þar var maðurinn í snarbröttu klettabelti, fyrir ofan hann þverhnípt stál og ekki mikið betra fyrir neðan. Drónar voru staðsetja manninn og hafa sýn yfir svæðið meðan aðgerðum stóðum.

Auk björgunarsveitarinnar frá Fáskrúðsfirði barst aðstoð frá Norðfirði og Reyðarfirði en sveitirnar þar búa yfir sérhæfðum búnaði til björgunar við aðstæður til þessar. Yfir tíu manna hópur fór upp í fjallið og kom fyrir búnaði í fjallinu.

Fyrst var komið hlýrri fötum og vistum mannsins sem var orðinn þreyttur, kaldur og svangur á klettasyllunni. Sigmaður seig síðan niður til hans og flutti hann neðar í fjallið í heldur skárri aðstæður til að komast um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem búið var að kalla út frá Reykjavík.

Þyrlan fór að sunnan upp úr klukkan tíu. Tæpum þremur tímum síðar var maðurinn hífður upp í þyrluna sem flutti hann niður á flugvöllinn í Fáskrúðsfirði. Á meðan beðið var eftir þyrlunni vann björgunarfólk fyrir neðan klettabeltið að því að gera allt tilbúið ef einhverra hluta vegna gengi björgun með þyrlunni ekki upp.

Grétar Helgi Geirsson, formaður Björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði, segir að aðgerðirnar hafi verið töluvert krefjandi fyrir björgunarfólkið. Auk brattans í fjallinu hafi verið komið fram í myrkur og farið að kólna. Hins vegar hafi veðrið verið gott, lygnt og ágætis skyggni nær allan tímann.

Aðgerðum lauk um klukkan þrjú í nótt þegar síðasta björgunarsveitarfólkið kom til síns heima.

Mynd: Landsbjörg