Tilkynnt um nýja dagskrá Unglingalandsmóts: Keppt í snjókasti og skíðagöngu

egs_23052011_2.jpgÓveður og ófærð er enn víða á Austurlandi og snjó kyngir niður. Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands sendi í morgun frá sér tilkynningu um töluvert mikið breytta dagskrá unglingalandsmótsins um verslunarmannahelgina þar sem tekið er mið af núverandi veðuraðstæðum.

 

Vopnafjörður er einangraður og beðið hefur verið með mokstur þangað í morgun vegna veðurs. Ekkert ferðaveður er í Jökuldal og Möðrudalsöræfum.

Ófært er á Fjarðarheiði, Vatnsskarði eystra og Mjóafjarðarheiði. Byrjað er að ryðja til Borgarfjarðar og Seyðisfjarðar en færð þangað er enn slæm.

Ófært er bæði um Breiðdalsheiði og Öxi og óveður þar. Snjór er á öðrum fjallvegum og skafrenningur.

Óveður er í Suðursveit og austur á Djúpavog. Leiðin um Álftafjörð og Hamarsfjörð er merkt ófær í kortum Vegagerðarinnar. Lögreglan ræður fólki frá því að vera á ferðinni þar eins og er.

Starfsmenn í sláttugengjum bæjarvinnunnar hafa flest fengið skilaboð um að þurfa ekki að mæta í vinnu. Einhverjir munu þó vera að hjálpa til við að ryðja snjóinn. Á Egilsstöðum voru bæjarstarfsmenn byrjaðir að ryðja götur bæjarsins upp úr klukkan sex í morgun. Það gekk þó brösuglega þar sem snjó kyngdi niður.

Á vef UÍA var í morgun birt ný dagskrá Unglingalandsmótsins, sem til stendur að halda á Fljótsdalshéraði um verslunarmannahelgina, sem tekur mið af breyttu veðurfari. Ekki virðast mótshaldarar bjartsýnir á að nokkuð rofi til en þar er gert ráð fyrir að björgunarsveitarmenn á snjóbílum fylgi keppendum til og frá bæjarmörkunum. Reiknað er með keppni í ístölti og skíðagöngu, sem til þessa hafa ekki verið keppnisgreinar á mótinu!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.