Skip to main content

Tillögur um atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði kynntar um mánaðarmótin

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. feb 2024 09:50Uppfært 05. feb 2024 09:52

Ráð er fyrir gert að sérstakur starfshópur um framtíðar atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði sem komið var á fót á síðasta ári sem mótvægisaðgerð vegna lokunar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar [SVN] í bænum skili af sér tillögum um næstu mánaðarmót eða tæpum mánuði áður en vinnslunni lokar.

Síldarvinnslan tilkynnti um það í septembermánuði að allri starfsemi í bolfiskvinnslu fyrirtækisins á Seyðisfirði yrði hætt endanlega og stóð þá til að lokunin kæmi til framkvæmda tveimur mánuðum síðar. Eftir viðræður við sveitarfélagið var samþykkt að fresta lokuninni fram til 31. mars og leita skyldi leiða til að milda þetta mikla högg fyrir bæjarbúa en rúmlega 30 manns hafa starfað alla jafna í bolfiskvinnslunni. Þá var jafnframt komið á fót vinnuhópi sem skyldi leita leiða til að fjölga atvinnutækifærum í bænum til langframa og einnig formlega óskað tillagna frá almenningi varðandi hugmyndir þar að lútandi. Um 20 hugmyndir sem inn komu þannig þóttu nægilega góðar til að skoða betur og hefur hópurinn rýnt þær tillögur síðan í byrjun desember. Til stendur að styrkja þær hugmyndir sem vænlegastar þykja þegar þar að kemur.

Í máli eins nefndarmanns, Ómari Bogasyni rekstrarstjóra bolfiskvinnslu SVN á Seyðisfirði, í samtali við Fiskifréttir að hluti þeirra sem misst hefðu vinnuna væru þegar komnir í önnur störf og þar á meðal í fiskimjölsverksmiðju SVN í bænum en sú mun starfa áfram. Þar kemur jafnframt fram að áformin um lokunina hafi ekki breyst vegna aðstæðna í Grindavík en ein ástæða lokunarinnar á Seyðisfirði voru kaupin á mun betri og fullkomnari vinnslustöðvum Vísis þar í bæ um mitt ár 2022.

Vinnsla í fullri keyrslu á Seyðisfirði fyrir nokkrum árum. Þeirri vinnslu lokað endanlega í lok marsmánaðar. Mynd SVN/Ómar Bogason