Tilraun að HSA annist alla heimaþjónustu aldraðra

Sveitarfélögin Múlaþing og Fjarðabyggð ásamt Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) hafa verið valin í tilraunaverkefni í öldrunarþjónustu sem verið er að hleypa af stokkunum á vegum íslenska ríkisins. Á svæðinu á að gera tilraun með að HSA haldi utan um alla heimaþjónustu.

Verkefnið Gott að eldast er fjögurra ára áætlun tveggja ráðuneyta: félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytis annars vegar, hins vegar heilbrigðisráðuneytis. Það miðar að því að samþætta og efla þjónustu við fólk yfir 67 ára aldri. Sá hópur er í dag 13% þjóðarinnar en stefnir í að verða 20% árið 2050.

„Við þurfum annað hvort að tvöfalda fjölda hjúkrunarheimila á næstu 20 árum eða auka þjónustuna. Við ráðum hvorki við að byggja þau heimili né kostnaðinn af þeim. Það er ljóst að hvorki stjórnvöld hér né annars staðar geta að óbreyttu borið uppi alla þá þjónustu sem þörf er á. Þess vegna samþykkti Alþingi í vor þessa aðgerðaáætlun sem miðar að því að fólk geti búið heima hjá sér með öruggum hætti,“ sagði Berglind Magnúsdóttir, starfsmaður verkefnisins við kynningu á því á Egilsstöðum og Reyðarfirði nýverið.

Sex tilraunaverkefni á landinu


Á síðasta ári var sveitarfélögum og heilbrigðisumdæmum boðið að sækja um stuðning við tilraunaverkefni. Fjarðabyggð og Múlaþing, í samvinnu við HSA, lögðu fram tvær tillögur áður en sú sem nú er unnið með varð fyrir valinu. Alls fengu sex heilbrigðisumdæmi í samvinnu við 22 sveitarfélög samþykkt tilraunaverkefni.

Verkefnið eystra gengur út á samþættingu heimaþjónustu. Hún hefur til þessa skipst á milli ríkis eða heilbrigðisstofnana og sveitarfélaga, í gegnum félagsþjónustu, eftir ástandi einstaklingsins. Hugmyndin eystra er sú að HSA taki þessa þjónustu alfarið að sér.

„Þá yrði öldrunarþjónustan á einni hendi. Undir henni er heimahjúkrun, heimaþjónusta, dagþjónusta og hjúkrunarheimilin,“ segir Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSA í samtali við Austurgluggann.

Góð reynsla frá Seyðisfirði


Þannig hefur fyrirkomulagið verið á Seyðisfirði frá árinu 2018 og reynst vel. „Þar er þjónustan veitt út frá hjúkrunarheimilinu. Reynslan er góð, flæðið verður meira þannig að samfella næst í þjónustunni. Upplifunin er að einkum þau sem þiggja þjónustuna, sérstaklega heimahjúkrun, finna öryggi í styttri boðleiðum inn á hjúkrunarheimilið, til dæmis í hvíldarinnlagnir þegar þær eiga við,“ segir Nína.

Fljótsdalshreppur er með samning um félagsþjónustu við Múlaþing og fellur þannig innan verkefnisins. Vopnafjörður er ekki inni í tilraunaverkefninu. Þar er þó heimaþjónustan veitt út frá hjúkrunarheimilinu Sundabúð sem HSA tók við nýverið af Vopnafjarðarhrepp.

Styrkja einstaklinginn í að bjarga sér heima


„Við verðum að finna leiðir þannig að fólk sé sem mest sjálfbjarga en búi á sama tíma við það öryggi að fá þjónustuna sem það þarf, þegar það þarf. Samkvæmt aðgerðaáætluninni á að leggja áherslu á nýja þjónustu, heimaenduræfingu, þar sem fagaðili í endurhæfingu, svo sem iðjuþjálfi, leggur mat á getu einstaklings heima hjá honum og þjálfar hann. Reynt verður að finna út hvað einstaklingurinn getur og styrkja hann í því en aðstoða hann við það sem hann getur ekki,“ útskýrir Nína.

Berglind bætti við að hugað yrði að ýmsum þáttum í umhverfi eldra fólks. Fram undan er til dæmis vitundarátak um félagslega einangrun og einmanaleika. Eitt skrefið þar kann að vera að draga úr heimsendingum á mat til að hvetja fólk til að koma frekar og hittast þar sem boðið er upp á mat. Líkamsrækt eða heilsuefling er annar þáttur til að fækka þeim sem þurfa á þjónustu að halda, eða seinka því.

Nína Hrönn segir að enn sé unnið að því hvernig tilraunaverkefnið verði útfært nánar. Það verði rætt við bæði sveitarfélögin og íbúa. Hún vonast til að einhver mynd verði farin að fást á það í haust.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.