Tíminn nýttur til að selja hrognabirgðirnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. mar 2024 13:43 • Uppfært 12. mar 2024 13:44
Tækifæri hefur gefist til að selja miklar birgðir af loðnuhrognum, sem söfnuðust upp á vertíðinni í fyrra, í ár þar sem engin vertíð hefur verið. Á móti hafa sjávarútvegsfyrirtæki orðið af möguleikunum á að selja frystar afurðir.
„Við framleiddum mikið af hrognum í fyrra, 26-8 þúsund í landinu meðan markaðurinn tekur 10-12 þúsund tonn á ári. Það hefur því verið mikið af hrognum hjá öllum framleiðendum.
Vonandi er að það losni aðeins um þessar birgðir núna. Það eru aðeins farnar að koma fyrirspurnir um þær,“ sagði Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, á kynningu um ársuppgjör Síldarvinnslunnar.
Hann sagði veruleg vonbrigði að ekki hefði tekist að finna loðnu í því magni að hægt væri að gefa út kvóta í ár. Verst væri það fyrir markaði sem kaupi frosnar afurðir.
„Í fyrra seldust þær nánast strax eftir vertíðina. Það var mikil eftirspurn eftir hrygnu í Asíu og hæng í Austur-Evrópu. Vonandi hefur loðnubresturinn nú ekki áhrif á þessa markaði.“
Í stað loðnuvertíðar í byrjun árs hafa uppsjávarútgerðirnar einbeitt sér að kolmunna en kvóti á honum var aukinn. Skip Síldarvinnslunnar hafa að undanförnu sótt á Rockall-hafsvæðiði, vestur af Skotlandi. Gunnþór sagði veiðina þar góða þótt langt þyrfti eftir fiskinum.
Síðasta ár var eitt hið besta í sögu Síldarvinnslunnar. Hagnaður fyrirtækisins var rúmir tíu milljarðar íslenskra króna.