Skip to main content

Tjaldsvæði komið í gagnið í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. júl 2025 12:06Uppfært 08. júl 2025 12:07

Búið er að taka í notkun tjaldsvæði ætlað til bráðabirgða í Neskaupstað. Eldra tjaldsvæði staðarins þurfti að víkja í vor vegna framkvæmda við snjóflóðavarnagarða.


Tjaldsvæðið er á svokölluðum Bökkum, yst í byggðinni. Svæðið hefur í gegnum tíðina verið notað undir tjaldsvæði þegar stórhátíðir hafa verið haldnar í bænum, einkum Eistnaflug.

Samkvæmt tilkynningu Fjarðabyggðar er ekki þjónusta á svæðinu en salernisaðstaða við áningarstað Fólksvangsins í Neskaupstað. Nokkur tenglabox eru fyrir ferðavagna. Varað er við því að svæðið sé viðkvæmt vegna bleytu og því mikilvægt að virða merkingar sem komið hefur verið upp um svæði sem eru lokuð af.

Tjaldsvæði Neskaupstaðar var áður við snjóflóðavarnagarðana undir Drangagili. Í fyrra hófust framkvæmdir við varnargarða sem byrja þar og ná út að Bökkum þannig að tjaldsvæðið þurfti að víkja.

Stjórnendur Fjarðabyggðar hafa sagt að þeir hafi vonast til að halda tjaldsvæðinu í ár en framkvæmdir gengið hraðar en þeir væntu í vetur og því varð tjaldsvæðið að víkja. Stefnt er á að nýtt tjaldsvæði innan við byggðina verði tilbúið fyrir næsta sumar.

Tafir urðu einnig á opnun tjaldsvæðis á Eskifirði í vor þar sem stefnt hafði verið á að semja um þjónustu á því um leið og í Neskaupstað. Horfið var frá því þegar tafir urðu á opnun í Neskaupstað. Samið var við CampEast um að sjá um tjaldsvæðið á Eskifirði í sumar og það var opnað í lok júní.