Tökur á þáttaröðinni Retreat enn í gangi á Austurlandi

Tökur standa enn yfir á Austurlandi á þáttaröðinni Retreat en þennan daginn er kvikmyndafólkið að störfum á Lake Hotel Egilsstöðum. Einnig hafa verið teknar senur í þættina í Vök Baths og bílaflotinn sem framleiðslunni fylgir hefur sést víða annars staðar eins og á Seyðisfirði.

Mikil leynd hvílir yfir framleiðslu þessara þátta og fást litlar upplýsingar um gang mála hjá framleiðendum en Austurfrétt hefur þó heimildir fyrir að tökur þáttanna hafi tafist nokkuð bæði vegna Covid og slæms veðurfars.

Retreat er eftir því sem næst verður komist einungis þriggja þátta sería en að stærstum hluta tekin hérlendis. Þættirnir fjalla um unga stúlku sem boðið er í samkvæmi milljarðamærings á fáförnum stað og þarf sú að leysa morðgátu þegar einn gestanna finnst látinn.

Fjöldi þekktra leikara taka þátt og þar þekktastur er bresku leikarnir Clive Owen og Emma Corrin en einhverjir ættu einnig að þekkja til leikaranna Alice Braga, Joan Chen og Harris Dickinson sem öll koma við sögu. Þá kemur nokkur fjöldi svokallaðra statista, sem sjást aðeins í bakgrunni, við sögu og flestir þeirra frá Egilsstöðum.

Aðrir staðir á landinu sem koma við sögu í þáttunum er lúxushótelið Deplar á Norðurlandi og tónlistarhúsið Harpa í Reykjavík.

Mynd: Tökuliðið að störfum á Lake Hotel Egilsstaðir en óljóst er hvenær tökum lýkur hér austanlands. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.