Skip to main content

Töluverð fækkun vinnuslysa austanlands á síðasta ári

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. maí 2025 09:32Uppfært 06. maí 2025 09:34

Hverju sem veldur fækkaði tilkynntum vinnuslysum á Austurlandi um rúm 30% á síðasta ári samanborið við árið 2023 sem var versta árið í þessu tilliti hin allra síðustu ár.

Samkvæmt upplýsingum úr kerfi Vinnueftirlitsins urðu 80 vinnuslys í fjórðungnum austfirska 2024 sem er snöggtum betra en þau 118 slys sem skráð voru ári fyrr 2023. Alls hafa 492 slys við vinnu verið skráð frá árinu 2020 og þar af 28 slík hingað til á yfirstandandi ári. Það var árið 2020 sem eftirlitsstofnunin skipti um tölvukerfi svo ekki var unnt að fá tölfræði lengra aftur en það án töluverðrar fyrirhafnar.

Vinnueftirlitið heldur ekki sérstaka skrá yfir aðgerðir sínar eða viðbrögð vegna slysa en metið er hverju sinni hvort þörf sé á sérstakri slysarannsókn eða vettvangsathugun í kjölfar hvers slyss. Það er ekki hlutverk stofnunarinnar að benda á sök eða ábyrgð heldur leiða í ljós orsakir slysa og reyna að koma í veg fyrir þau að því segir í svari upplýsingafulltrúa við fyrirspurn Austurfréttar.