Skip to main content

Töluverður áhugi á Hermes

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. ágú 2023 13:57Uppfært 24. ágú 2023 08:28

Ýmsir aðilar hafa sýnt áhuga á að kaupa eignina að Búðareyri 4 á Reyðarfirði, þekkt sem Hermes, en þar var lengi rekin Skólaskrifstofa Austurlands og fyrir þann tíma bústaður kaupfélagsstjórans á staðnum.

Eignin komst í hendur sveitarfélagsins Fjarðabyggðar í kjölfar þess að rekstri Skólaskrifstunnar var hætt fyrir tæpum tveimur árum síðan. Sveitarfélagið tók þá ákvörðun að setja eignina á sölu og segir Þórdís Pála Reynisdóttir, fasteignasali hjá Lindum fasteignasölu, að þó engin kauptilboð hafi enn borist sé greinilegur áhugi til staðar.

„Þetta er afskaplega falleg eign sem vel hefur verið við haldið og það hafa ýmsir haft samband og verið með hugmyndir fyrir húsnæðið. Einhverjir sjá fyrir sér að breyta því í gistiheimili meðan aðrir eru að hugsa að hólfa það niður í nokkrar íbúðir og þá hugsanlega til leigu. Þarna eru þegar til staðar allnokkur herbergi og húsnæðið á frábærum stað í bænum auðvitað.“

Þórdís segir aðspurð að sala eigna á Austurlandi hafi tekið ákveðinn kipp eftir að sumarfríum lauk hjá fólki en fasteignasalan Lindin er nú með einar 40 mismunandi eignir til sölu hér í fjórðungnum.

„Það er ekki ýkja langt síðan að það voru um hundrað eignir til sölu hjá okkur á Austurlandi svo það sýnir kannski hve mikil hreyfing er á markaðnum þarna fyrir austan.“

Hermes-húsið er gamalt og virðulegt húsnæði með mikla sögu en ásett verð eru tæpar 40 milljónir króna. Mynd Fasteignasalan Lindin