Skip to main content

Töluvert hráslagalegt veður framundan

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. apr 2025 10:56Uppfært 11. apr 2025 12:38

Veðurhret æði algeng um og yfir páskana og eftir mikla hlýindaviku í veðurfarslegu tilliti austanlands er einmitt hret á leiðinni um helgina með nokkrum kulda, töluverðri snjókomu eða slyddu og hvassviðri í þokkabót langt fram í næstu viku.

Engar tveggja stafa hitatölur er að finna í veðurspám Veðurstofu Íslands næstu vikuna heldur er að kólna allnokkuð á nýjan leik og frá og með sunnudeginum fer hitastigið vart yfir fimm stig neins staðar á Austurlandi og næturfrost líklegra en ekki.

Þann sama dag gera veðurfræðingar ráð fyrir töluverðri snjókomu og slyddu víðs vegar í fjórðungnum og það verður ofankoma af því taginu fram á miðvikudaginn hið minnsta ef spár ganga eftir.

Enn verra að samhliða lægri hita og snjókomu gera fræðingarnir ráð fyrir töluverðum norðan- og norðaustan vindi marga daga í röð sem þýðir töluverða vindkælingu í þokkabót. Sunnu- og mánudagur sýnu verstir samkvæmt nýjustu spá með vindstyrk allt að 11 metra á sekúndu meðan hitastigið víðast verður rétt yfir frostmarki.