Skip to main content

Tókst að bjarga birgðum og verðmætum Vísis í Grindavík

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. nóv 2023 12:12Uppfært 23. nóv 2023 12:29

Þó starfsemi Vísis í Grindavík, dótturfyrirtækis Síldarvinnslunnar, hafi verið í lamasessi eins og annað í bænum vegna jarðhræringa síðustu vikur tókst að bjarga flestu því sem hægt var að bjarga að sögn forstjórans.

Síldarvinnslan keypti útgerð Vísis í Grindavík sumarið 2022 en kaupin fengu grænt ljós Samkeppniseftirlitsins síðla það sama ár. Á þeim tíma höfðu jarðhræringar á Reykjanesskaga lítið haft áhrif á Grindavík og nágrenni en það breyttist til hins verra fyrir nokkru eins og kunnugt er. Bærinn meira og minna verið lokaður um tveggja vikna skeið en síðdegis á gær var ákveðið af hálfu Almannavarna að lækka almannavarnarstig á svæðinu úr neyðarstigi í hættustig. Áfram verða þó verulegar lokanir í gildi og engin starfsemi getur þar farið fram að svo stöddu.

Aðspurður um hvernig til hafi tekist að bregðast við þessum hamförum hjá Vísi segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, það hafa tekist eins vel og hægt var miðað við aðstæður.

„Vísir er dótturfyrir okkar og við erum bara að vinna í eins góðri lausn mála og hægt er miðað við aðstæður og tökum bara einn dag í einu. Afurðum og birgðum gátum við bjargað á sínum tíma og fluttum meðal annars saltfiskinn í vinnslu sem við erum með í Þýskalandi. Nú bara bíðum og sjáum hvernig spilast úr þessu á þessu svæði. Þetta er auðvitað ákveðin óvissa um hvað verður en það virðist ekki hafa orðið neitt tjón á okkar eignum þarna í bænum svo staðan er eins vænleg og hún gat orðið svona miðað við allt og allt.“

Útgerð Vísir í Grindavík og hluti flota útgerðarinnar á þessari mynd frá í fyrra. Skipin héldu öll annað við hamfarirnar en ekkert tjón virðist hafa orðið á eignum Vísis hingað til. Mynd SVN