Skip to main content

Tólf milljónir króna veittar úr samfélagssjóði Fljótsdals

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. mar 2022 15:24Uppfært 11. mar 2022 17:47

Alls fengu fjórtán verkefni fjárstyrk úr samfélagssjóði Fljótsdælinga en styrkirnir voru veittir með viðhöfn á fimmtudaginn.

Þetta er þriðja árið í röð sem styrkur er veittur úr umræddum sjóð sem var upphaflega komið á fót bæði vegna óska þess efnis eftir íbúaþing í sveitarfélaginu en ekki síður til að gefa fjárbændum á svæðinu tækifæri til að færa út kvíarnar á sama tíma og tekjur af hefðbundnum búskap drógust mjög saman. Sjóðnum ætlað að styðja nýsköpun og atvinnuskapandi tækifæri íbúa héraðsins og annarra þeirra sem áhuga hafa á að byggja upp í Fljótsdal.

Alls bárust 24 umsóknir alls um styrki upp á 26 milljónir króna alls þetta árið en sjóðurinn að þessu sinni hafði tæplega helming þess til umráða. Fjórtán verkefni hlutu náð fyrir augum styrknefndarinnar þetta árið. Hæsta styrkinn, 3.6 milljónir króna, hlaut fyrirtækið Könglar í eigu Dagrúnar Dróttar Valgarðsdóttur sem framleiðir ýmsa drykki úr íslenskum jurtum úr héraði.

Fyrirtækið Sauðagull, sem framleiðir vörur úr sauðamjólk, hlaut 2,5 milljóna króna styrk til að byggja upp sína eigin framleiðsluaðstöðu og þá fékk fyrirtækið Lífkol tveggja milljóna króna styrk til framleiðslu á nýrri vörutegund á gömlum grunni en til framleiðslunnar verður meðal annars notaður allur úrgangs- og grisjunarviður sem til fellur í sveitarfélaginu.

Óbyggðasetur Íslands hlaut styrki bæði til að talsetja efni fyrir þýska ferðamenn og jafnframt til að hefja ylræktun við Laugafell. Cornelis Aart Meijles fékk styrk vegna tilraunaverkefnis um hringrásarhagkerfi. Kjartan Glúmur Kjartansson hlaut 500 þúsund krónur til að koma sögum úr Fljótsdalnum á framfæri við ferðamenn, hið fljótsdælska handverksfélag Droplaug hlaut sömu upphæð til að koma á fót námskeiðum í gömlum handbrögðum og Náttúruskólinn fékk einnig hálfa milljón króna til að skapa Vorævintýri í óbyggðum sem miðar að því að vekja áhuga barna fyrir náttúrunni.

Aðrir sem styrki fengu voru Erla Dóra Vogler til að koma klassískri tónlist á framfæri, Tilraunaeldhúsið á Hallormsstað til kennslu  um sveppi og sveppatýnslu, Eyrún Axelsdóttir til að vinna listaverk sem tengjast Fljótsdalnum og Arna Silja Jóhannssóttir til að fanga myndir af gömlum mannvistarleyfum.

Mynd: Styrkþegar kampakátir með sitt við sérstaka athöfn í Végarði á fimmtudaginn. Mynd AE