Tónspil verður félagshús tónlistarfólks
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. apr 2022 17:07 • Uppfært 04. apr 2022 17:08
Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) hefur keypt húsið að Hafnarbraut 22 þar sem verslunin Tónspil hefur verið um árabil. Húsið er ætlað undir æfinga- og félagsstarf tónlistarfólks í Neskaupstað.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá SÚN. Áætlað er að húsið verið tilbúið undir nýju starfsemina þann 1. júní.
Haft er eftir Guðmundi R. Gíslasyni, framkvæmdastjóra SÚN, að viðræður hafi staðið yfir milli BRJÁN (Blús-, rokk- og jazzklúbbsins á Nesi) og SÚN um aðstöðu frá árinu 2017. Þá var Blúskjallarinn seldur eftir að hafa skemmst í vatnsflóði. Síðan hefur tónlistarfólk í Neskaupstað ekki átt sér fastan samastað. Um tíma var horft til kjallara undir Lúðvíkshúsi en frá því var horfið.
SÚN hafði svo frumkvæði að kaupunum á Tónspili. „Tónlistarfólk hefur of lengi nánast verið á götunni og og það staðið í vegi fyrir allri þróun. Æfingaaðstaða er frumskilyrði svo hægt sé að æfa fyrir tónleika og búa til nýja tónlist. Ég á von á því að næsta tónlistarstjarna frá Neskaupstað muni undirbúa jarðveginn í Tónspil.“
Pjetur S. Hallgrímsson stofnaði Tónspil árið 1987. Pjetur trommaði með fjölmörgum austfirskum sveitum og starfaði síðan við fiskvinnslu hjá Síldarvinnslunni áður en hann opnaði búðina. Upphaflega ætlaði hann að opna billiardstofu með plötusölu sem aukagrein en Tónspil varð um árabil ein helsta verslun íslensks tónlistaráhugafólks.
En tímarnir hafa breyst, einkum með tilkomu streymisveitna á netinu. Tónspil hefur aukið vöruúrval sitt auk þess sem gistiheimili var opnað á efri hæðinni en fyrir síðustu jól gaf Pjetur út að það yrði hans síðasta vertíð og hann hefði hug á að hætta verslunarrekstrinum.
„Auðvitað hefði verið betra að einhver tæki við rekstrinum en svo varð ekki. Því fannst okkur upplagt að slá tvær flugur í einu höggi. Pjetur er líka ánægður með að húsið verði áfram tónlistarhús,“ segir Guðmundur.
Reiknað er með því að húsnæðið verði í eigu SÚN en gerður verði afnotasamningur við BRJÁN.
Pjetur og Guðmundur við undirritun sölusamningsins. Mynd: Aðsend