Tæplega fjögurra metra háir skaflar á Fjarðarheiði: Myndir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. jan 2013 17:37 • Uppfært 08. jan 2016 19:23
Vegurinn yfir Fjarðarheiði milli Héraðs og Fljótsdalshéraðs var opnaður um kaffileytið í dag en hann hafði þá verið ófær síðan á laugardagskvöld. Dýpstu skaflarnir teygja sig í fjögurra metra hæð og á köflum er nær að tala um snjógöng frekar en veg.
„Hann er mjög harðbarinn snjórinn og fastur. Þess vegna gekk þetta svona hægt,“ segir Hrólfur Jónsson verkstjóri hjá Þ.S. verktökum sem sjá um snjómokstur á heiðinni. „Það er mikill snjór en þetta er ekkert rosalegt.“
Segja má að eftir að komið er upp á heiðina frá Héraði liggi vegurinn í 1,5-2 metra djúpum snjógöngum yfir til Seyðisfjarðar þar til komið er framhjá skíðasvæðinu í Stafdal.
Í brekkunum og beygjunum í kringum Stafdal, Mjósundum og Efri-Stafni er allt á kafi og nokkurra metra snjógöng með allt að fjögurra metra háum snjó á báðar hendur. Hætt er við að ef vind hreyfir lokist heiðin fljótt aftur.
Töluverð bílalest fylgdi í kjölfar mokstursbíls sem kom yfir heiðina frá Seyðisfirði stuttu fyrir klukkan fjögur í dag. Ferjan Norræna kom til Seyðisfjarðar í gær og lætur úr höfn klukkan átta í kvöld. Flutningar úr og í ferjuna hafa raskast nokkuð.










