Skip to main content

Transavia lenti á Egilsstöðum vegna gosmóðu á Akureyri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. júl 2025 15:24Uppfært 18. júl 2025 15:31

Flugvél frá hollenska flugfélaginu Transavia lenti á Egilsstaðaflugvelli í gærmorgun þar sem skyggni var ekki nægt á Akureyrarflugvelli vegna gosmóðu. Mikil umferð hefur verið um Egilsstaðaflugvöll í vikunni.


Flugvélin var á leiðinni frá Amsterdam í reglubundnu áætlunarflugi og átti upphaflega að lenda á Akureyri klukkan 8:10 í gærmorgunn. Gosmóða byrgði flugmönnum sýn og eftir nokkurt hringsól var henni snúið austur í Egilsstaði. Þar lenti hún klukkan 8:58. Akureyri.net greindi fyrst frá vandræðum vélarinnar.

Vélin beið á Egilsstöðum í rúman sólarhring og fór í loftið klukkan 11:43 í morgun, tæpum þremur kortérum á eftir áætlun. Alla jafna er gert ráð fyrir að vélarnar staldri aðeins við á Akureyri í tvo tíma.

Annasamt hefur verið á Egilsstaðaflugvelli í vikunni. Í hádeginu fóru þaðan tvær einkaþotur með merki INEOS, félags Jim Ratcliffe. Þær stöldruðu við í tvo daga.

Tvær aðrar minni einkaþotur voru á vellinum í gær. Önnur þeirra kom frá Álasundi í Noregi og fór fram og til baka með sex tíma stoppi á Egilsstöðum. Hin millilenti á leið frá Bretlandseyjum til Norður-Ameríku.

Fyrir viku var þar algul flugvél frá ADAC, félagi bifreiðaeiðaeigenda í Þýskalandi. Félagið er með stórt og með víðtækastarfsemi, meðal annars tryggingar á ferðalögum sem fela í sér rétt til að vera flogið heim í veikindum. Það mun hafa verið tilfellið.

Frá Egilsstaðaflugvelli í morgun. Þar voru þá tvær vélar frá Ineos, ein frá Transavia og áætlunarvél Icelandair.