Skip to main content

Traustar tekjur í Fjarðabyggð en hvað með álögur og útgjöld?

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. maí 2022 17:20Uppfært 04. maí 2022 17:42

Frambjóðendur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Fjarðabyggð virðast hafa trú á því að svigrúm sé í fjárhag sveitarfélagsins til að fylgja eftir stefnuskrám þeirra. Þeir hafa þó ólíka sýn á fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins.


Fjármálin komu til umræðu á framboðsfundi á Fáskrúðsfirði á mánudagskvöld. Þar var spurt hvort framboðin hefðu efni á að gera allt það sem væri á þeirra óskalistum. Einnig var spurt út í álögur á íbúa, sem sagt fasteignagjöld og útsvar.

Ekkert framboðanna svaraði því beint hvort búið væri að reikna út kostnað við stefnuskrárnar eða hvort nóg væri til fyrir þeirra ákveðnu stefnumálum en svörin voru á þá leið að Fjarðabyggð hefði öflugar tekjur.

Aukning gjalda umfram tekjur

Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafa talað fyrir að taka upp kerfi sem kallast opið bókhald og gera úttekt á rekstri sveitarfélagsins við upphaf nýs kjörtímabils. „Það væri óábyrgt að tala um það hér að lækka gjöldin en við erum að tapa um að opna bókhaldið þannig hægt sé að rýna hvar hægt sé að hliðra til,“ sagði Anna Berg Samúelsdóttir frá VG. Hún sagði hluta af stefnumálum framboðsins, eins og fræðslu frá Samtökunum 78, vera gjaldfrjálsa en á það var bent úr salnum að Samtökin rukkuðu fyrir fyrirlestra í skólum.

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði að B-hluti sveitasjóðs gerði tekjurnar miklar en skuldirnar hefðu aukist. Frá 2017 hefðu tekjur Fjarðabyggðar vaxið um 24% en útgjöld um 31%.

„Það sér hver maður að ef útgjöldin aukast alltaf umfram tekjurnar lendum við í óefnum. Áætlanir hafa verið full óraunhæfar og ekki staðist. Við sjáum að launakostnaður var 300 milljónir umfram áætlun í fyrra og lántaka fór líka framúr. Svona mætti áfram telja. Við verðum að gera raunhæfar áætlanir, annars lendum við í ógöngum og þá lækka gjöldin aldrei,“ sagði hann.

Lífeyrir og styttri vinnuvika

A-hluti sveitasjóðs hefur verið hausverkur. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsgjalda var tap hans 437 milljónir í fyrra. Veltufé frá rekstri í þeim hluta var þó jákvætt um 400 milljónir. Von er á bata, áætlanir Fjarðabyggðar fram til ársins 2025 gera ráð fyrir hagnaði af A-hlutanum.

Rétt er að taka fram að Austurfrétt hefur óskað eftir afriti af greinargerð fjármálastjóra, sem lá fyrir bæjarstjórn við umræðu um ársreikning í síðasta mánuði. Fjarðabyggð hefur hafnað að láta hana af hendi þar sem um vinnugagn sé að ræða. Austurfrétt hefur óskað eftir formlegum rökstuðningi fyrir þeirri skilgreiningu en um vinnugögn er fjallað í áttundu grein upplýsingalaga.

Hjördís Helga Seljan frá Fjarðalista sagði hallann hafa orðið út af auknum lífeyrisskuldbindingum sem sveitarfélagið hefði ekkert haft um að segja heldur orðið að taka á sig vegna breytts útreiknings. Útsvarið væru undirstöður góðra tekna sveitarfélagsins og óábyrgt væri að lofa lækkun á því.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri og oddviti Framsóknarflokks, sagði kostnað við kjarasamninga þar sem samið var um styttingu vikunnar hafa orðið meiri en reiknað var með. „Við ákváðum að skera ekki niður þjónustu en á móti kom aukinn launakostnaður í vaktavinnu. Fjarðabyggð er tekjulega gríðarlega sterkt en auðvitað er reksturinn þungu í víðfeðmu sveitarfélagi með mikla þjónustu. Þess vegna verður viðarandi verkefni að standa undir öllu sem við gerum.“

Hærra fasteignamat eykur gjöld

Nokkur umræða varð um fasteignagjöld án afgerandi niðurstöðu, það er hvort aðgerðir sveitarfélagsins hefðu orðið til þess að auka álögur eða vegið upp á móti hækkunum sem fylgja hækkandi fasteignamati en gjöldin eru hlutföll af því. Óumdeilt er að Fjarðabyggð lækkaði um síðustu áramót álagningarstuðul sinn úr 0,5 í 0,48 og álagningarstuðul vatnsgjalda um 10%. „Við tókum ekki við þeirri hækkun sem við hefðum getað gert,“ benti Hjördís Helga.

Á móti innheimtir Fjarðabyggð nú fasteignagjöld ellefu mánuði á ári í stað tíu áður. Enginn svaraði afdráttarlaust á fundinum hvort sú viðbót æti upp lækkun álagningarstuðlanna. Helsta niðurstaðan var að raunhækkun hefði orðið vegna hækkunar fasteignamats, þótt það væri misjafnt eftir hverfum sveitarfélagsins.

Ragnar sagði Sjálfstæðisfólk hafa rætt fasteignaskattanna reglulega á kjörtímabilinu og meðal annars lagt áherslu á að vatnsgjald yrði innheimt eftir fermetrafjölda eignar en ekki verðmati. „Þjónustan er sú sama hvert sem verðmætið er.“

Jón Björn minnti á að fara yrði varlega í lækkun fasteignagjalda, þau sveitarfélög sem ekki fullnýta tekjustofna sína eigi á hættu að verða fyrir skerðingum á greiðslum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Fjarðabyggð væri með hámarksútsvar eins og flest önnur sveitarfélög önnur en „gullhrepparnir.“ Hann minnti á að sveitarfélögin þyrftu að standa undir vaxandi kröfum, bæði íbúa í gegnum aðgerðir bæjarstjórnar og ríkis með auknum reglum. Hann sagði hins vegar önnur gjöld lág, til dæmis í tónskóla og leikskóla enda áherslan verið að reyna að létta undir með tekjulægri hópum og fjölskyldufólki.