Skip to main content

Treysta á að farið verði eftir ábendingum Skipulagsstofnunar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. feb 2022 10:18Uppfært 09. feb 2022 10:18

Meirihlutinn í umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings vonast til að Umhverfisstofnun og Matvælastofnum taki tillit til þeirra ábendinga sem Skipulagsstofnun gerði við umhverfisáhrif fyrirhugaðs fiskeldis í Seyðisfirði. Minnihlutinn vildi fresta útgáfum leyfanna þar til fyrir liggur skipulag fjarðarins.


Fyrir liggur umsókn Fiskeldis Austfjarða um allt að 10 þúsund tonna laxeldi í firðinum. Eins og Austurfrétt hefur greint frá gerði Skipulagsstofnun ýmsar athugasemdir við áhrifin, taldi hættu á erfðablöndun við villta laxa í nágrenninu auk þess sem þörf væri á nánara samráði við íbúa til að lægja öldur í samfélaginu.

Álitið var tekið fyrir á fundi ráðsins í síðustu viku. Í tillögu meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem samþykkt var með fjórum atkvæðum gegn þremur, er lýst þeirri skoðun að álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati framkvæmdarinnar sé greinargott og því fagnað að tekið sé tillita til athugasemda fagaðila, sveitarfélagsins og annarra.

Í álitinu séu ítarlegar tillögur um skilyrði sem setja eigi í starfs- og rekstrarleyfi til að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum á umhverfi fjarðarins, samfélagið og aðra atvinnustarfsemi á svæðinu. Því hvetji ráðið stofnanirnar til að fara eftir þessum ábendingum við útgáfu leyfisins.

Þá er Fiskeldi Austfjarða hvatt til að fara að tilmælum um samráð við heimafólk, meðal annars við sjómenn um staðsetningu eldiskvía. Ítrekuð er fyrri afstaða sveitarfélagsins um að mikilvægt sé að ljúka sem fyrst við gerð strandsvæðaskipulags fyrir Austfirði.

Að sama skapi var felld tillaga minnihluta Austurlista og Vinstri grænna. Í henni var farið yfir punkta úr áliti Skipulagsstofnunar, meðal annars um að staðsetning eldiskvía í þröngum firðinum gæti þrengt að siglingaleiðum og Farice sæstrengnum auk hættunnar á útbreiðslu sjúkdóma, erfðablöndunar og andstöðuna í samfélaginu.

Minnihlutinn vildi meðal annars vegna þessa bíða eftir niðurstöðum strandsvæðaskipulags, sem væntanlegt er í vor, með að halda málinu áfram enda væri þannig lagður grunnur að sátt við samfélag og umhverfi.

Fundargerð ráðsins kemur til afgreiðslu á fundi sveitarstjórnar Múlaþings sem haldinn verður eftir hádegi í dag. Málið var einnig á dagskrá heimastjórnar Seyðisfjarðar í fyrradag en þar var umræðu frestað til næsta fundar.