Skip to main content

Trúnaðarráð samþykktu atkvæðagreiðslu um verkfall í álverinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. sep 2025 09:16Uppfært 12. sep 2025 14:33

Trúnaðarráð AFLs starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) hafa hvort í sínu lagi samþykkt að hefja atkvæðagreiðslu um verkfall í álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði.


Unnið hefur verið að undirbúningi verkfalls síðan í júlí þegar viðræður um nýjan kjarasamning sigldu í strand. Heldur mjakaðist í rétta átt í deilunni á fundi á miðvikudag en ekki nóg til að breyta gangi mála.

Trúnaðarráð RSÍ kom saman strax á miðvikudagskvöld en trúnaðarráðs AFLs seinni partinn í gær. Fyrir fundunum lá tillaga um að hefja atkvæðagreiðslu um verkfall og var hún samþykkt.

Í dag vinna félögin að því að orða spurninguna sem lögð verður fyrir fyrir félagsfólk. Á fimmta hundrað starfsmanna í álverinu eru á kjörskrá. Að sögn Hjördísar Þóru Sigurþórsdóttur, formanns AFLs, er stefnt að því að atkvæðagreiðslan hefjist á mánudag. Hún stendur í viku. Kosið er rafrænt.

Verkfallið hefst síðan sex mánuðum eftir að niðurstaða liggur fyrir, verði tillagan samþykkt. Miðað við það yrði upphaf þess í lok mars 2026 en samningarnir hafa verið lausir síðan í lok febrúar.

Nýr fundur hjá ríkissáttasemjara hefur ekki verið boðaður en Hjördís Þóra segir að sáttasemjari hafi á miðvikudag talað um að taka stöðuna í næstu viku.