Skip to main content

Tryggja verður samkeppnishæfni fiskvinnslu á Íslandi til framtíðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. nóv 2023 10:38Uppfært 09. nóv 2023 10:57

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) segir Íslendinga þurfa að gæta að samkeppnishæfni sinni til að halda áfram að hámarka verðmæti úr sjávarútvegi. Alþjóðleg samkeppni geti grafið undan stöðu landsins og gert það að ríki sem flytji út hráefni en ekki fullunna vöru.


Þetta kom fram í máli Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur á fundi sem SFS stóð fyrir á Egilsstöðum á mánudag en samtökin standa þessa dagana fyrir opinni fundaferð um landið undir yfirskriftinni „Hvað hefur sjávarútvegurinn gert fyrir mig?“

Þar fór hún yfir verðmæti sjávarútvegs í formi útflutningstekna sem séu nauðsynlegar fyrir íslenska þjóðarbúið. Heiðrún fór yfir umræðu um veiðigjald og sagði hækkun þess stundum lagða fram sem lausn á lífskjaravanda Íslendinga. Svo væri það ekki heldur varanlegur vöxtur útflutningsverðmæta.

Slíkt væri áskorun þar sem auðlindin væri takmörkuð. Til þessa hefði Íslendingum lukkast það vel og skapað verðmætið hérlendis í stað þess að flytja hráefnið til vinnslu í löndum þar sem laun séu lægri. Þannig fái Ísland bæði hæsta verð fyrir hvert kíló af þorski miðað við nágrannalönd.

Þá séu 90% þorsks unnin hérlendis, sem sé hærra hlutfall en í nágrannalöndunum. Heiðrún Lind sagði Íslendinga flytja út fullunna vöru á vel borgandi markaði í Vestur-Evrópu meðan Norðmenn sendu mikið af sínum fiski til Kína til vinnslu.

Verður að hugsa hvernig tekist er á við samkeppnisumhverfi fiskvinnslu


Heiðrún Lind sagði að samhliða tæknivæðingu hefðu laun í fiskvinnslu hækkað og orðið öruggari. Hérlendis sé launakostnaður á hverja vinnustund í vinnslu orðinn hæstur. Hins vegar sé launakostnaður í Póllandi, sem sé samkeppnisland, fjórðungur af því sem gerist hérlendis.

„Fiskvinnsla á Íslandi er áskorun til næstu ára. Hvernig lítur hún út eftir 5-10 ár? Ef okkur tekst ekki að tryggja hana þá verðum við hráefnisland og þar með töpum við verðmætasköpuninni, ekki bara í vinnslunni sjálfri heldur tengdum greinum, svo sem tækniþróun,“ sagði hún.

Hún kallaði eftir að stjórnvöld sýndu þor við að taka stórar ákvarðanir til framtíðar til að tryggja stöðugleika og áframhaldandi fjárfestingu í sjávarútvegi. Búa þurfi til öruggt og fyrirsjáanlegt kerfi sem skapi áfram hvata til að fjárfesta nýjustu tækni. „Hvernig ætlum við að takast á við samkeppnisumhverfi fiskvinnslu? Ef við gerum ekkert þá hverfur samkeppnisforskotið.“