Óttast að uppsagnir á barna- og unglingageðdeild FSA skerði þjónustu á Austurlandi

skolaskrifstofa_austurlands.jpg
Forsvarsmenn Skólaskrifstofu Austurlands hafa áhyggjur af því að uppsagnir yfirmanna á barna- og unglingageðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir skjólstæðinga á svæði stofnunarinnar.

Þetta kemur fram í áskorun frá Skólaskrifstofunni sem send var Bjarna Jónssyni, forstjóra FSA, fyrir skemmstu. Yfirlæknir og sálfræðingur á deildinni sögðu upp störfum í byrjun febrúar vegna óánægju með skipulagsbreytingar.

Í áskoruninni, sem undirrituð er af Aðalheiði Jónsdóttur sálfræðingi og Sigurbirni Marinóssyni, forstöðumanni skrifstofunnar, segir að deildin á Akureyri hafi í rúman áratug verið það skref sem sálfræðingar Skólaskrifstofunnar hafi vísað áfram á þegar um alvarlegan vanda hafi verið að ræða.

Ánægja hafi verið með hvers skjótt hafi verið brugðist við nyrðra, vandað til verka og eftirfylgd verið góð. Þjónustan hafi verið vönduð og skilvirk og það mættu fleiri taka sér til fyrirmyndar.

„Óttast er að með uppsögnum umræddra sérfræðinga verði barnageðlækningar á FSA í mýflugumynd ef þær þá ekki leggjast alveg af. Engan veginn verður séð að sjálfstætt starfandi sérfræðingar eða aðrar stofnanir verði færar um að taka við þeim fjölda sem barna- og unglingageðdeild FSA hefur sinnt hingað til.“

Skorað er á stjórnendur Fjórðungssjúkrahússins, velferðarráðuneytið og aðra hagsmuna að taka höndum saman og koma í veg fyrir að þjónustan skerðist.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.