Tíu tímar frá mengunarslysi til tilkynningar til yfirvalda

eskifjordur_eskja.jpgTíu klukkustundir liðu frá því að blóðvatni var dælt inn á neysluvatnslögn Eskifjarðar í byrjun júlí þar til atvikið var tilkynnt til Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST). Fleiri dæmi eru um hæg boðskipti aðila sem komu að slysinu. Einn var lagður inn á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað vegna mengunarinnar.

 

Þetta kemur fram í greinargerð Fjarðabyggðar og Heilbrigðiseftirlitsins um málið og viðbrögð við því.

Aðfaranótt sunnudagsins 4. júlí tengdi starfsmaður löndunarfyrirtækisins Tandrabergs slöngu neysluvatnslögn í dælu í löndunarhúsinu til að að skola úr dælunni. Þrýstingur á dælunni var hærri en þrýstingur á neysluvatnskerfinu og þannig fór svokallað blóðvatn inná neysluvatnskerfi Eskifjarðar.

Tæpir tíu tímar frá mengun til tilkynningar

Atvikið uppgötvaðist í fiskimjölsverksmiðjunni 3-4 tímum seinna. Þá var strax frá vatnslögnum þar og látið renna þar til vatnið var orðið eðlilegt á litinn. Í greinargerðinni segir að starfsmenn Eskju hafi kannað ástandið í næstu húsum eftir að atvikið uppgötvaðist en þeir ekki orðið varir við neitt óeðlilegt.

Klukkan þrjú um daginn voru gestir í sundlauginni reknir upp úr og starfsmaður þar tilkynnti mengunina til mannvirkjastjóra Fjarðabyggðar. Heilbrigðiseftirlitið fékk tilkynningu frá sundlauginni og mannvirkjastjóranum um klukkustund síðar.

Eskja tilkynnti ekki um atvikið til Heilbrigðiseftirlitsins.

Sloppnir?

Sveitarfélagið lét skola út af lögnum á milli fiskimjölsverksmiðjunnar og Dalsins og stofnlögn var opnuð og vatn látið renna þar. „Seinni part sunnudags gengu starfsmenn vatnsveitunnar í öll hús innan Bleiksár til að láta fólk vita af mengunaróhappinu og voru íbúar hvattir til að skola lagnirnar í sínum húsum.“

Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins og mannvirkjastjóri töldu að náðst hefði að skola lagnirnar. Því væri ekki ástæða til að vara íbúa utan Bleiksár við. Niðurstöðu sýnatökur daginn eftir bentu til þess að þótt mengun hefði komist inn á neysluvatnskerfið væri ekki hætta á ferð. Áfram var skolað út af veitukerfinu.

Meiri mengun en nokkurn óraði fyrir

Sýni sem tekin voru á miðvikudegi „sýndu mun meiri gerlamengun og víðar í neysluvatnskerfinu, en nokkurn hafði órað fyrir.“

Bráðabirgðaniðurstöður bárust heilbrigðiseftirlitinu í tölvupósti á fimmtudegi en þar sem þeir voru utan skrifstofu við vinnu sáu þeir ekki póstinn fyrr en í hádegi daginn eftir. Þá var dreift dreifibréfum til íbúa þar sem þeir voru hvattir til að sjóða neysluvatn og skola lagnakerfi húsa sinna.

Í greinargerðinni segir að hvorki HAUST né mannvirkjastjóra Fjarðabyggðar hafi ekki borist tilkynningar eða fyrirspurnir um málið frá íbúum fyrr en eftir að bréfið var borið í hús.

Einn lagður inn í Neskaupstað

Talið er að eina innlögn á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað mánudaginn 5. júlí megi rekja til mengunarinnar. Sjúkrahúsið vissi ekki um mengunina þá.

Ekki voru merkjanlegar auknar komur á heilsugæslustöðina á Eskifirði en meira var hringt og spurt ráða, meðal annars vegna magakveisa, einkum eftir að fjölmiðlar fjölluðu um málið.

Lærdómur

Í niðurstöðum greinargerðarinnar segir meðal annars að mikilvægt sé að mengunarvaldur tilkynni mengunaróhöpp tafarlaust. Kanna þurfi hvort hægt sé að sekta hina brotlegu.

HAUST þarf að tilkynna Matvælastofnun og yfirlækni um mengun í neysluvatni og/eða matvælum. Upplýsingar um varasama gerla í sýnum þurfa að berast strax frá rannsóknarstofu til HAUST.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.