Tugprósenta munur á hita- og rafmagnskostnaði innan Fljótsdalshéraðs
Hvernig skyldi standa á því að heimili mitt á milli Lagarfljótsvirkjunar og Egilsstaða skuli vera gert að greiða mun hærra gjald fyrir rafmagn en heimili í þéttbýlinu?
Þetta ein sú spurning sem brann á íbúum í dreifbýlinu á Fljótsdalshéraði á sérstökum fundi sem heimastjórn svæðisins hélt fyrir nokkru.
Samkvæmt minnisblaði heimastjórnarinnar voru það raforkumálin, eða nánar tiltekið raforkukostnaðurinn, sem íbúum dreifbýlisins sveið hvað mest. Kannski ekki furða því hundrað þúsund krónum getur munað á rafmagns- og hitunarkostnaði heimilis í Eiða- eða Hjaltastaðaþinghá miðað við heimili í þéttbýlinu á Egilsstöðum. Það þrátt fyrir að rafmagnið á svæðinu komi allt meira og minna frá Lagarfljótsvirkjun og rafmagnið sé beinlínis flutt gegnum Eiða- og Hjaltastaðaþinghá til Egilsstaða. Eðlilegt væri að flutningskostnaður rafmagns væri því helmingi lægri en á Egilsstöðum en það ekki raunin.
Á íbúafundinum kom fram að vegna hærra flutningsgjalds raforku væri það raunin að heimili í dreifbýlinu væri að greiða rétt tæplega 300 þúsund krónur fyrir rafmagn og hita á ársgrundvelli. Það næstum hundrað þúsund krónum hærra en sami kostnaður fyrir íbúa Egilsstaða. Það fannst íbúum í dreifbýlinu ansi súrt því öll raforka á svæðinu er framleitt í dreifbýlinu.
Heimastjórnin tók vel undir með íbúum dreifbýlisins og beindi þeim tilmælum til byggðaráðs Múlaþings „að taka til umfjöllunar og vinna að fullri jöfnun á raforkuverði óháð búsetu.“ Var það samþykkt samhljóða en byggðaráð hefur ekki tekið málið til umræðu að svo stöddu.
Lagarfossvirkjun framleiðir rafmagn fyrir stóran hluta Fljótsdalshéraðs og víðar. En svo virðist sem þeir sem búa nálægt virkjuninni borgi mun hærra verð en þeir sem fjær eru. Mynd Rarik