Tungumenn heimtu sex kindur í gær

Göngur og réttir eru vanalega í september, þótt þekkt sé að eftirleitir taki allt haustið og áfram birtist kindur fram á nýja árið. Sjaldgæfara er þó að kindur heimtist í mars. Bændur í Hróarstungu handsömuðu í gær sex kindur sem verið hafa úti í vetur.

„Það er sérstakt að heimta á þessum tíma – en það er alltaf gott að fá fé,“ segir Jóhann Guttormur Gunnarsson, á Litla-Bakka.

Um var ræða þrjár rollur og þrjú lömb. Fimm kindanna komu frá Litla-Bakka, þar sem tveir samvinnubændur halda saman fé, en eitt lambið frá Kirkjubæ.

Jóhann telur líklegast að féð hafi sloppið undan smölum í haust og síðan falið sig í birkikjarri í Kirkjubæjarásum. Það hafi þó ekki komið fram þótt búið sé að fara um það svæði, bæði við rjúpnaveiðar og önnur tilefni síðan í haust.

Til kindanna sást á sunnudag frá Hallfreðarstöðum. Jóhann telur að kindurnar hafi ekki treyst sér yfir Hallfreðarstaðalæk því hann hafi verið auður. Fjórir smalar fóru af stað í gær og króuðu féð af við lækinn.

Hann segir kindurnar hafa verið vel haldnar. „Þær virtust saddar og hornahlaup á lambhrútnum þannig þær hafa ekki liðið skort. Það hefur verið frekar snjólétt í vetur. Þær voru heldur á leiðinni í áttina heim þótt þeim lægi ekki á í góða veðrinu en hafa sennilega ekki lagt í lækinn.“

Ærnar eru veturgamlar og segist Jóhann alltaf hafa reiknað með að sjá þær. Aðeins eitt lamb undan þeim kom fram í haust og var þá vel á sig komið. „Ég taldi ólíklegt að þær hefðu farið sér að voða ásamt lömbum.“

Jóhann segist ekki viss um hvort kindurnar séu með lömbum en hann reikni með því þar sem hrútur var í hópnum. Þess vegna sé líklegt að þær þjófstarti sauðburðinum hjá samvinnubændunum á Litla-Bakka.

Mynd: Stefán Bragi Birgisson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.