Skip to main content

Tvær þotur í innanlandsflugi í dag

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. mar 2022 11:01Uppfært 18. mar 2022 11:02

Tvær þotur Icelandair eru væntanlegar austur til Egilsstaða í kvöld. Önnur þotan var skipulögð fyrir stóran hóp en hin vegna áhrifa veðurs á flug síðustu daga.


„Það kom beiðni fyrir stóran hóp og þar sem við erum með eina Q400 vél í viðhaldi þá ákváðum við að leysa þetta með því að nýta MAX vél til þess að geta þjónustað hópinn og aðra farþega á sama tíma,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Boeing Max8 þotan tekur 160 farþega hvora leið, samanborið við um 70 í Bombardier Q400 vélunum. Ásdís staðfestir að mikil eftirspurn hafi verið eftir flugi milli Egilsstaða og Reykjavíkur síðustu vikur, einkum um helgar.

Ferðatíminn er sá sami þótt flogið sé með þotunni. Hún flýgur hraðar en vélarnar sem vanalega eru notaðar innanlands, en á móti tekur lengri tíma að þjónusta farþega fyrir og eftir flug.

Skammt verður milli þotanna því önnur verður nýtt til að bregðast við röskunum á innanlandsflugi vegna veðurs í gær, þegar fella varð niður fjórar ferðir til bæði Egilsstaða og Akureyrar frá Reykjavík.

Þess vegna fer þota frá Reykjavík klukkan 17 í dag til Akureyrar, stoppar þar í einn og hálfan tíma áður en hún heldur áfram til Egilsstaða og staldrar við í 40 mínútur áður en hún flýgur til Reykjavíkur.

„Það er allt fullt í flug um helgina og þess vegna brugðum við að þetta ráð til þess að koma þeim farþegum sem áttu bókað í flug sem fyrst,“ segir Ásdís.