Tveggja stafa hitatölur í kortunum framyfir helgi austanlands
Þó Sumardagurinn fyrsti eigi samkvæmt dagatalinu að tákna formlega komu sumarsins með hlýindum á norðurhjara eru þeir margir sem gefa lítið fyrir það fyrr en hitastigið fer í tveggja stafa tölu. Það raungerst síðustu sólarhringa og meiri hlýindi eru í kortunum vel fram á helgina.
Hitaspá Veðurstofu Íslands vel fram á næstu viku gerir ráð fyrir að hæsti hiti austanlands fari víðast hvar í tveggja stafa tölur og sólríkt á velflestum stöðum auk þess sem vindur verður að mestu í lágmarki á láglendi.
Á Egilsstöðum er spáð 11 - 12°C hita fram á föstudag þegar hitastigið tekur stökk upp í 18°C. Hitinn hangir kringum það alla helgina og reyndar fram í næstu viku en með þeim formerkjum að sólin hverfur á mánudaginn og rigning tekur við.
Sömu sögu er að segja af fjörðum Austurlands allt frá Vopnafirði til Djúpavogs þó Borgfirðingar megi eiga von á eilítið lægra hitastigi en aðrir ef spár Veðurstofunnar ganga eftir.
Þó taka beri lengri veðurspám með miklum fyrirvara eru spár Veðurstofunnar á pari við spár erlendra veðurstofa að strax á mánudag fer að rigna nokkuð duglega í öllum fjórðungum og öll næsta vika verður í blautari kantinum gangi það eftir. Hitastig ætti þó áfram að vera kringum tveggja stafa tölurnar.